Eyrún Lydía er jöklaleiðsögukona með mikla ævintýraþrá. Hún hefur ferðast ein til fjölmargra landa víðsvegar um heiminn frá því hún var svo ung sem sautján ára. Eyrún var svo æðisleg að skrifa lauflétta og skemmtilega grein um ævintýrin sín og deilir skemmtilegum heilræðum með lesendum. Gefum Eyrúnu Lydíu orðið.

Ég heiti Eyrún Lydía, er 22 ára jöklaleiðsögukona, ævintýrafíkill með dass af adrenalínfíkn, áhugaljósmyndari og elska að ferðast eins og svo margir aðrir, þú eflaust líka kæri lesandi. Ég fékk þá skemmtilegu áskorun að vera gestabloggari hérna hjá Gekkó.

Ég byrjaði að ferðast almennilega þegar ég var 17 ára og allt til dagsins í dag hef ég farið til Brasilíu, El Salvador, Kólumbíu, Perú, Mexíkó, Bahamas, Jamaíka, Marokkó, Bandaríkjanna,  og Spánar svo fátt eitt sé nefnt. Það er gaman segja frá því að ég hef ferðast ein til allra þessara staða og fleiri!

Af hverju ferðast ég ein?

Fyrsta skipti sem ég fór ein til útlanda þá gerði ég það vegna þess að enginn gat farið með mér. Ég eyddi alltof miklum tíma í að spyrja hvort einhver vildi koma með mér, mér fannst ég vera óörugg að fara ein til lands sem ég hafði aldrei komið til. En svo hugsaði ég; mun ég sjá eftir því ef ég fer ekki? Svarið var auðvitað já svo ég skellti mér.
Ég kom heim reynslunni ríkari og eftir það var ekki aftur snúið!
Að ferðast ein/n fer algjörlega í reynslubankann. Maður lærir að stóla á sjálfan sig og byggir upp sjálfstraust um leið. Ef eitthvað kemur uppá er enginn annar nema þú sem getur bjargað þér. Þú getur breytt ferðaplönunum þínum eins og þú vilt og kynnist fólki allsstaðar að úr heiminum. Þegar maður ferðast einn leggur maður líka eflaust meiri áherslu á umhverfið, aðstæðurnar sem maður er í, að lifa í núinu í staðinn fyrir að gleyma sér í samskiptum við ferðafélaga.

Sjá einnig: Rakel Rós: Að vera kona á ferðalagi

Eftir menntaskóla ferðaðist ég um Spán en ég hef lengi haft mikinn áhuga á spænskri menningu og tungumálinu svo það kom fólki ekki mikið á óvart að ég skyldi skella mér beint þangað. Ég segi oft við vini mína og fjölskyldu að ég held ég hafi verið spænsk í fyrra lífi.

Éf fékk vinnu í brimbrettaskóla (surfcamp) á Tenerife sem var algjör snilld en rosalega krefjandi. Ég var þar í dágóðan tíma en svo átti að flytja skólann annað með þeim afleiðingum að starfsfólkið fékk frí í nokkrar vikur. Ég greip því tækifærið

, sá að flugmiðar voru ódýrir frá Kanaríeyjum og mig hafði lengi langað til að fara til Brasilíu svo ég skellti mér þangað! Það var stærsta ferðalag sem ég hafði farið í og Brasilía var klárlega toppurinn fyrir mig.

Eftir þá reisu var ég ástfangin af Suður Ameríku, menningunni, tónlistinni, fólkinu, að ógleymdum matnum! Nú nýverið kom ég úr ferðalagi um Mexíkó, Bahamas og Jamaíka. Ég viðurkenni að Mexíkó er núna uppáhalds landið mitt.

Sjá einnig: Ása Steinars: 7 ódýrir áfangastaðir til að heimsækja víðsvegar um heiminn

Ég veit ekki hversu oft fólk hefur sagt mér sögur af glæpum frá hinu og þessu landi sem ég er að fara til. Ég verði nú að passa mig annars verði ég rænd og líklegra fórnarlamb því ég sé ljóshærð og með blá augu. Jú, auðvitað á maður að hlusta á þannig en maður á ekki að láta það hræða mann eða draga úr manni kjarkinn. Heldur á maður að nota þessar sögur til að hjálpa manni á ferðalaginu. Þessvegna ætla ég að skrifa hér nokkur ráð fyrir sólóferðalanga.

1. Lestu um landið sem þú ert að fara til

Þá meina ég, hvar sé best að gista, fer eftir hvort þú vilt Airbnb, hostel eða annað. Bestu staðirnir til að borða á og smakka mat heimamanna. Læra hvernig á að segja hæ og bæ og takk (það kemur sér alltaf af góðum notum og maður fær mun betri aðstoð þegar þar að kemur). Hverjir eru vinsælustu ferðamannastaðirnir og hvað mig varðar þá leita ég oft til dæmis að (óvinsælum/local) stöðum til að taka flottar myndir. Ég nota Pinterest mikið til að fá hugmyndir um landið.
Auðvitað er gott að lesa um staðinn sem maður er að fara á, hvort það sé mikill þjófnaður, hvort gefa eigi þjórfé og fleira en mér persónulega þykir ekki gaman að lesa eitthvað neikvætt um staði því ég vil frekar koma með mitt eigið álit. Ef vinir og kunningjar segja eitthvað

neikvætt um staðinn sem ég er að fara til þá vil ég ennfremur fara til að upplifa það sjálf og mynda mína eigin skoðun.

Sjá einnig: Íris: Að ferðast á sem ódýrastan hátt

2. Öryggi

Vertu tilbúin fyrir hvað sem er.
– Góð þumalputtaregla; Hlustaðu á þína innri rödd, ef þér finnst þú vera óörugg/ur hlustaðu þá á það.
– Vertu með ferðahleðslutæki fyrir símann þinn til að hlaða hann ef eitthvað kemur fyrir.
– Vertu með bók til að skrifa í allskonar punkta, t.d. heimilisföng, hvar þú gistir, hvert þú ert að fara og vegabréfsnúmer. Hver veit nema síminn deyi eða sé stolið af þér. Þá ertu allavega með heimilisfangið af staðnum sem þú ert að gista á.
– Svo þetta týpíska sem er nauðsynlegt að nefna, ekki fara á milli staða með of mikinn pening eða með vegabréfið þitt nema nauðsyn sé fyrir því. Svo er gott líka að vera með auka pening á öðrum stað en seðlaveskinu þínu. T.d. geyma smá pening í sokknum, í brjóstarhaldara og/eða í bakpokanum mínum á góðum stað (það getur komið fyrir að taskan sé opnuð af fólki sem vinnur á flugvellinum og þá er gott að hafa peninginn í leynivasa eða jafnvel í snyrtitöskunni).
– Hafðu alltaf auga með drykknum þínum. Þetta á bæði við um stelpur og stráka.
– Láttu alltaf einhvern heima vita hvað þú ert að fara gera þann dag og hvenær þú ætlar að vera komin til baka. Þá veit sá hinn sami hvenær á að hafa áhyggjur.
Safetravel er íslenskt app sem ég nota mikið ef ég er að fara eitthvert hérna heima sem ég hef aldrei farið. Þetta app hefur verið gert í fleiri löndum og hvet ég fólk til að nota það. Þú opnar reglulega appið og setur inn staðsetninguna þína. Þannig að ef eitthvað kemur fyrir er hægt að finna hvar þú varst seinast. Mjög sniðugt!
– Ekki segja neinum hvar þú ert að gista nema þú virkilega treystir manneskjunni og hefur hitt hann/hana oftar en einu sinni. Ég hef séð Taken aðeins of oft!

3. Lifa og njóta

Ekki gleyma að dekra við þig af og til á ferðalaginu. Ég t.d. reyni að ferðast sem ódýrast. En að bóka af og til hótelherbergi með góðu rúmi og sturtu er algjör draumur! Ég fer líka einstaka sinnum á flottan veitingastað eða þá í spa, við vitum öll að það er miklu dýrara á Íslandi svo hví ekki að leyfa sér þegar maður er úti. Maður er nú í fríi!

Sjá einnig: Elín Kristjáns: 27 ferðahökk beint í æð

4. Ekki dæma ákvörðunina þína

Ef þú vilt gera eitthvað sem skiptir þig máli gerðu það þá. Jafnvel þó það sé að taka smá blund að degi til. Það er ekki sóun á tíma þínum ef það er það sem þú vilt sannarlega. Ef þú vilt sjá vinsælustu ferðamannastaðina skaltu gera það. Ekki sleppa því sem þú hefur raunverulegan áhuga á vegna þess að einhver gerði grín að því. Þú ert að ferðast til að gera þig hamingjusama/n og fyrir engan annan.

Sjá einnig: Ferðakvíði: Að ferðast með nagandi samviskubit

5. Ljósmyndir

Ég hef mikinn áhuga á að taka ljósmyndir en vantar stundum hugmyndir af hvar það ætti að vera, þá leita ég á Instagram eða Pinterest.
Ekki hika við að biðja fólk um að taka mynd af þér, mér finnst ég alltaf geta treyst eldra fólki og/eða pörum. Ef þú ert ekki ánægð með myndina spurðu þá bara einhvern annan.
Ég á vinkonu sem ferðast líka mikið ein og hún notar Flytographer.com
Það er síða með helling af fólki sem er tilbúið að ferðast með þér og taka myndir af þér gegn gjaldi. Ég hef því miður ekki notað það sjálf en hún segir það vera rosaleg sniðugt og oftast veit ljósmyndarinn af bestu stöðunum til að fara á.

Sjá einnig: Tanja og Sverrir: Hvernig á að taka flottar myndir sem par?

6. Vantar hugmyndir að einhverju að gera? Ekkert mál!

Airbnb er app sem ég nota rosalega mikið. Það er ekki eingöngu með hugmyndir að gistingu heldur nýlega er það byrjað að koma með eitthvað sem kallast Experience. Þetta er algjör snilld og ef mig vantar hugmynd af einhverju til að gera þá fer ég þangað. Þetta eru semsagt allskonar hlutir sem heimamenn eru að bjóða uppá gegn smá gjaldi. Það getur verið námskeið í að læra elda, prjóna og jafnvel sigla! Hjóla um miðbæinn og prófa bestu Mexíkönsku veitingastaðina? Hví ekki. Það er eitthvað sem ég prófaði og sé ég alls ekki eftir því! Ég kynntist líka helling af fólki sem bókaði sömu ferð.
Ef þig vantar ennþá hugmyndir þá geturu eflaust fundið eitthvað hér inná Gekkó líka – prófaðu allavegana að leita í leitarglugganum!

 

7. Gerðu eitthvað sem þig hefur aldrei dottið í hug að gera

Ég er til dæmis ekki góð í að elda svo að læra elda í fjarlægu landi er bara ansi góð hugmynd! Eða þá fallhlífarstökk, klettaklifur, læra sigla, læra búa til vindil eða fara í vínsmökkun, möguleikarnir eru endalausir!

Þessi listi er auðvitað ekki tæmandi talinn.
Mikilvægast er að skemmta sér og njóta!

 

Eyrún Lydía Sævarsdóttir

Instagram: eyrunlydia

About The Author

Gestabloggarar eru ýmsir aðilar sem hafa frumsent okkur greinarnar sínar eða leyft okkur að endurbirta greinar eftir sig af öðrum miðlum. Vilt þú birta færslu á Gekkó? Ýttu á umslagið í horninu eða sendu okkur póst á ritstjorn@gekko.is og við kíkjum á þetta saman!

Related Posts

One Response

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.