Ég vissi að Dubai yrði “extreme” borg, en hún er jafnvel enn magnaðari en ég hafði ímyndað mér!

Ég sat algjörlega orðlaus í tandurhreinu lestinni frá flugvellinum í átt að Dubai Marina. Lestin svífur hljóðlaust áfram hátt yfir borginni sem gefur kítl í magann og tilfiningu eins og maður sé kominn inn í framtíðar “sci-fi” bíómynd. Ég naut þess að horfa á sólina koma upp á milli skýjakljúfranna og fylgjast með jakkafataklæddu mönnunum koma hlaupandi inn í lestina á leið til vinnu.

Lestin svífur áfram rétt yfir iðandi götum borgarinnar Lestin svífur áfram rétt yfir iðandi götum borgarinnar

Dubai er mun vestrænni en ég var búin að gera ráð fyrir. Margir voru búnir að nefna við mig að ég þyrfti að klæða mig á viðeigandi hátt, jafnvel hylja hár, olnboga og hné eins og tíðkast oft í Mið-Austurlöndum. Ég komst hins vegar fljótt að því að sumarkjólar og stuttbuxur eru samþykktar víðast hvar í borginni. Þú munt þó sjá margar konur klæðast “abaya” sem hylja mest allan líkamann og heimamennina (kallaðir Emiratar) klæðast síðum kufli og sérstöku höfuðfati sem kallast “keffiyeh”.

Emiratarnir (heimamenn) koma sér vel fyrir í Dubai Mall Emiratarnir (heimamenn) koma sér vel fyrir í Dubai Mall

Vestrænir ferðamenn falla ágætlega inn í fjöldann í Dubai þar sem 80% íbúar borgarinnar eru innflytjendur. Þeir koma allstaðar að úr heiminum, mest frá Indlandi en einnig frá Evrópu og öðrum löndum á Arabíuskaganum. Flestir koma hingað í leit að draumastarfinu, því hér finnur þú útibú helstu viðskiptarisa heims á borð við Sony, Samsung, Apple og fl. Einnig er yfirleitt engin krafa um tungumálakunnáttu aðra en ensku.

Ég naut þeirra forréttinda að fá að gista í nokkrum af frægustu skýjakljúfrum Dubai. Bæði hinum víðfræga Cayan Twisting Tower staðsettur á Dubai Marina, ásamt Burj Khalifa hæstu byggingu heims. Ef þú hefur áhuga á að lesa þér nánar til um það og hvernig ég útvegaði gistinguna finnur þú það hér: 

Hér í Dubai finnur þú allt og þá meina ég ALLT! Ekki fara til Dubai með það í huga að þetta verði framandi áfangastaður sem gefur þér innlit inni í arabíska menningu. Því hér finnur þú Cheescake Factory, Victorias Secret, Shake Shack, Magnolia Bakery (fræga bakaríið í New York) og allt annað sem þú getur ímyndað þér. Borgin er himnaríki fyrir þá verslunarglöðu, en hér er sennilega mesta úrval vöru- og fatamerkja í heiminum, bæði frá Ameríku og Evrópu. Dubai er með fleiri en 70 verslunarmiðstöðvar, þar á meðal Dubai Mall, stærstu verslunarmiðstöð í heimi. Þar getur þú lært að kafa með hákörlum í einu stærsta fiskabúri heims, skellt þér á skauta, horft á hina víðfrægu gosbrunnasýningu og sest á veitingarstað með útsýni yfir hæstu byggingu heims, Burj Khalifa. Búðu þig samt undir það að týnast!

Dubai er eins og “litla” Ameríka, hvert sem þú lítur munt þú taka eftir nýjum byggingarframkvæmdum. Þetta árið er verið að byggja enn aðra gervi-eyjuna, skýjaklúfur sem mun snúast í 360 gráður og stærsta parísarhjól í heiminum. Það er svo sannarlega margt að sjá og gera í þessari iðandi stórborg. Því ætla ég að deila með ykkur lista með mínum uppáhalds stöðum í borginni ásamt nokkrum góðum ferðaráðum.

Einn af mínum uppáhalds hótelbörum með útsýni yfir Burj Khalifa Einn af mínum uppáhalds hótelbörum með útsýni yfir Burj Khalifa

Nokkur Ferðaráð

Kröfur um klæðaburð

Eins og minnst er á hér að ofan er klæðaburður í Dubai ansi vestrænn. Á flestum stöðum kemstu upp með sumarfatnað en hins vegar á stöðum eins og verslunarmiðstöðvum er krafist þess að hylja hné og olnboga. Auk þess eru margir veitingarstaðir og hótel þar sem þarf að klæða sig í fínni kantinum. Það er þó leyfilegt að klæðast bikiníi a ströndinni en utan þess er það bannað.

Leigubílar

Leigubílar eru hræódýrir í Dubai – sérstaklega miðað við verðin á Íslandi! Leigubílstjórarnir styðjast ávallt við fjarðlægðamælinn sem minnkar líkur á svindlum.

Lestarkerfið einfalt

Lestarkerfið er afar einfalt, í raun bara ein meginlína sem liggur í gegnum alla borgina samhliða strandlengjunni. Ég mæli klárlega með því að kaupa silfur kort á einni af lestarstöðvunum því þá fæðu fargjaldið á 50% lægra verði. Þú getur  lagt hvaða upphæð sem er inn á kortið og því borgar það sig jafnvel í 2 – 3 daga stoppi.

Strangar reglur

Það gilda mun strangari reglur í furstadæminu Dubai heldur en því sem við venjumst á Íslandi. Því er ágætt áður að kynna sér lög og reglur borgarinnar áður en haldið er af stað. Í Dubai eru háar fjársektir fyrir að borða í lestinni og henda rusli á göturnar. Auk þess er bannað samkvæmt lögum að kyssast og haldast í hendur á almannafæri og hafa innflytjendur verið sendir úr landi fyrir brot á þeim reglum.

Áfengi er bannað í borginni en hægt er að verða sér úti um áfengi á hótelum og heimahúsum sem hafa sérstakt leyfi. Það er þó ólöglegt að vera drukkin og með drykkjulæti á almannafæri. Brot á reglum borgarinnar geta haft alvarlegar afleiðingar í för með sér og því er ágætt að kynna sér helstu lög og reglur hér.

STAÐIR TIL AÐ HEIMSÆKJA Í DUBAI

Burj Al Arab – Eina 7 stjörnu hótelið í heiminum

Burj Al Arab er afar frægt lúxushótel sem er staðsett á gervieyju sem er tengd við meginlandið með brú. Hótelturninn er 321 m að hæð og er fjórða stærsta hótelbygging heims. Turninn var hannaður til að líkjast segli á hefðbundnum arabískum bát sem heitir “dhow”. Stundum er átt við hótelið sem eina 7 stjörnu hótelið í heiminum, en það er þó umdeilt.

Það krefst fyrirhafnar að komast inn á hótelið þannig besta leiðin er að skoða það utanfrá. Besta útsýnið yfir Burj Al Arab er í raun að heimsækja hótelið Madinat Jumeirah. Þar finnur þú magnaða hótelbari sem liggja við græna á. Meðfram ánni liggja veitingarstaðir, markaðir og barir. Það er frábært að setjast þar niður með bjór í hendi og njóta útsýnisins. Auk þess er hægt að heimsækja ströndina Jumeirah sem liggur 280 m frá sjálfu hótelinu.

Fallegt útsýni yfir Burj Al Arab og nóg af hótelbörum í kring Fallegt útsýni yfir Burj Al Arab og nóg af hótelbörum í kring

Fallhlífastökk með Skydive Dubai

Ef þú varst búin að hugsa þér að strika fallhlífastökk af “bucket listanum” þínum, afhverju ekki að gera það í Dubai? Hér finnur þú sannkallaða atvinnumenn í fallhlífarstökki og eitt flottasta útsýni sem þú getur óskað þér uppi í háloftunum. Stökkið mun eiga sér stað beint yfir gervieyjunni “The Palm” og háhýsunum þar í kring. Skydive Dubai eru miklir reynsluboltar á sínu sviði og fara nokkrar ferðir á dag.

Það er þó mikilvægt að bóka með góðum fyrirvara því oftast er uppbókað mánuði fram í tímann. Kíktu á heimasíðuna þeirra hér. 

Klárlega eitthvað sem þú ættir að prófa!  Klárlega eitthvað sem þú ættir að prófa!

Dubai Marina

Það er gaman að gera sér ferð og skoða þessa merkilegu mannbyggðu höfn! Þú kemst hingað auðveldlega með lestarkerfinu sem er afar einfalt. Lestarnar liggja meðfram strandlengju borgarinnar og hún stoppar beint fyrir framan höfnina.

Hér munt þú sjá fína fólkið úti að labba með hundana sína, pör á línuskautum og hlaupagarpana þjóta framhjá. Hvert sem þú lítur eru háir turnar af mismunandi gerðum og snekkjur siglandi um. Ég naut þess að sitja á Costa Café með ískaldan frappó og fylgjast með fólkinu. Meðfram höfninni finnur þú mikið úrval veitingarstaða og verslanna.

Útsýni úr íbúðinni í Canyan Twisting Tower - Yfir Dubai Marina Útsýni úr íbúðinni í Canyan Twisting Tower – Yfir Dubai Marina

Farðu á úlfalda í eyðimörkina

Þar sem furstadæmið Dubai er byggt í miðri eyðimörk er tilvalið að skella sér í eyðimerkurferð. Það eru ýmis fyrirtæki sem bjóða upp á ferðir daglega þar sem þú getur valið á milli þess að ferðast á jeppa, úlfalda eða jafnvel sandbretti. Þú keyrir yfir sandöldurnar í fagurrauðum sandi og endar í tjaldbúðum hirðingja þar sem þú færð kvöldverð, shisha pípu (austurlensk tóbakspípa) og stjörnuprýddan himinn í kaupbæti. Um kvöldið er kveiktur varðeldur og þú fylgist með austurlenskum dönsum og skemmtunum.

Njóttu síðdegis í eyðimörkinni fyrir utan stórborgina Njóttu síðdegis í eyðimörkinni fyrir utan stórborgina

Happy Hour á Hilton Skybar

Það ríkir áfengisbann í Dubai, en á hótelunum gilda vestrænar reglur og þar eru allir dagar partýdagar. Ég mæli sérstaklega með Hilton Skybar sem er staðsettur á Jumeirah ströndinni austan megin við Dubai Marina.

Barinn er einn af best geymdu leyndarmálum borgarinnar. Hér nýtur þú útsýnisins frá 35 hæð, með kristalhvítar svalir þar sem þú sérð yfir gervieyjuna – “The Palm”. Ekki nóg með það, ef þú sest rétt fyrir sólsetur getur þú notið þess að fá alla drykki á 50% afslætti. Þar sem þeir bjóða upp á Happy Hour drykki milli kl 16.00 – 18.00.

Fallegur og stílhreinn staður með besta útsýnið Fallegur og stílhreinn staður með besta útsýnið

Farðu upp í hæstu byggingu heims – Burj Khalifa

Þú ferð ekki til Dubai án þess að fara upp í hæstu byggingu heims – Burj Khalifa! Turninn er 830 m á hæð og það kostar um 13.000 kr að fá að fara upp á 123 hæð. Ég mæli með því að bóka heimsóknina fyrirfram því þá munt þú borga þriðjungi minna fyrir miðann. Besti tíminn til að heimsækja bygginguna er við sólsetur, þá munt þú sjá borgina bæði í dagsbirtu og myrkri.

Inni í Burj Khalifa Inni í Burj Khalifa

Dubai Mall 

“Shop till you drop” á svo sannarlega við hér! Taktu með þér hlaupaskóna því þú munt þurfa að labba langar vegalengdir!

Dubai Mall er stærsta verslunarmiðstöð í heimi og hér finnurðu heitistu merkin, bæði alþjóleg og staðbundin. Ef þú hefur ekki áhuga á því að versla gerðu þér þó ferð til að skoða stærsta fiskabúr heims. Þar munt þú sjá dýralíf á borð við hákarla, skötur og risafiska.

Vinstri: Dubai Mall er staðsett fyrir framan Burj Khalifa. Hægri: hið víðfræga fiskabúr Vinstri: Dubai Mall er staðsett fyrir framan Burj Khalifa. Hægri: hið víðfræga fiskabúr

Gosbrunnasýningin

Gosbrunnasýningin eða “Dubai Fountain Show” fer fram daglega á milli Dubai Mall og Burj Khalifa….og já, þú giskaðir rétt, þetta er stærsta gosbrunnasýning í heimi! Fyrsta sýning hefst kl 18.00 á kvöldin og endurtekur sig á 30 mín fresti fram að miðnætti en þó með öðruvísi mynstrum og tónlist í hvert skipti.

Algjörlega mögnuð gosbrunnasyning. Algjörlega mögnuð gosbrunnasyning. Í hvert skipti er gosbrunnasýningin mismunandi Í hvert skipti er gosbrunnasýningin mismunandi

Jumeirah ströndin

Jumeirah ströndin er afar stórt svæði, ég mæli einna helst með henni sem er staðsett austan megin við Dubai Marina. Á ströndinni er frábær stemmning og meðfram henni liggur fjöldinn allur af veitingarstöðum og verslunum á borð við Shake Shack, Ruby Tuesday og Cheescake Factory. Ströndin býður upp á frítt WiFi og mismunandi gerðir af sólbekkjum, allt frá grjónapúðum, hengirúmum í venjulega sólbekki. Ströndin sjálf er tandurhrein og sandurinn mjúkur. Vatnið er tært og mikið úrval vatnsskemmtunar er í boði, eins og JetSki, kayak og fl.

Útsýni yfir ströndina Útsýni yfir ströndina

Old Deira/Bur Dubai – Gamli bær borgarinnar

Hér finnur þú allt aðra hlið af Dubai! Í gamla bænum kemst þú burt frá háhýsunum og færð tilfinningu fyrir því hvernig Dubai var hér áður fyrr. Það er best að heimsækja gamla bæinn að kvöldi til því þá lifnar hann við. Taktu með þér klink, því lítill árabátur mun sigla með þig yfir lítið sund á milli markaða fyrir nokkrar krónur.

Á mörkuðunum getur þú nálgast hvað sem er, minjagripi, fatnað, skartgripi og framandi mat. Hér finnur þú bæði gullmarkað sem selur ekta gull á góðu verði ásamt skemmtilegum kryddmarkaði.

Þú getur dressað þig upp eins og Emiratarnir á gamla markaðnum Þú getur dressað þig upp eins og Emiratarnir á gamla markaðnum

Gervieyjan – Pálmatréið

Hefur þú einhverntíman heimsótt gervieyju áður? Það er ALLT til í Dubai, skelltu þér í lest sem keyrir þig út á enda eyjunnar sem er í laginu eins og pálmatré. Frá eyjunni færð þú gott útsýni yfir skýjakljúfrana sem liggja meðfram ströndinni. Einnig getur þú heimsótt hið víðfræga hótel, Atlantis.

Á Á “The Palm” færðu frábært útsýni yfir sjálfa borgina

Skelltu þér í golf

Golf er vissulega dýrt í Dubai (eins og margt annað), en ef þú ert mikill aðdáandi mæli ég með því að láta völlinn í Dubai ekki framhjá þér fara. Þér á eftir að líða eins og konungi á meðal fræga og fína fólksins. Besti tíminn til að spila golf er frá nóvember til febrúar þegar hitastigið er milt í kringum 20° C – 25°C.

Golfvellirnir ekki af verri endanum!  Golfvellirnir ekki af verri endanum!

Ferðastu um heiminn í Ibn Battuta verslunarmiðstöðinni

Ibn Battuta Mall er stærsta “þema” verslunarmiðstöð heims og er kennd við einn merkasta landkönnuð síns tíma, Ibn Battuta. Á 30 árum ferðaðist hann víða um heiminn og heimsótti öll þau múslimaríki sem voru til á þeim tíma. Verslunarmiðstöðin er tileinkuð ferðalögum hans og hvert svæði líkir eftir þeim löndum sem hann heimsótti. Ferðalagið þitt í gegnum miðstöðina mun því byrja í Egyptalandi, þaðan ferðu yfir til Persíu, þar næst til Indlands, Kína og áfram mætti telja. Það munu því blasa við þér moskvur, risa fílastyttur og jafnvel stærðarinnar bátur á meðan þú þræðir allar helstu tískubúðirnar.

Í viðbót við þennan lista er hægt að skella sér á skíði, heimsækja Mall of Emirates verslunarmiðstöðina, fara í veiðferð á snekkju og skella sér í Wild Wadi vatnsleikjagarðinn! Í Dubai ættu allir að geta fundið sér eitthvað við sitt hæfi.

 

About The Author

Ása Steinarsdóttir
Ritstjóri og færsluhöfundur

Ása er ein af þremur eigendum Gekkó og rekur einnig ferðabloggið FromIceToSpice Ása er þekkt fyrir að flakka um allan heim og grípa ótrúlegustu augnablikin á filmu, hvort sem það er í ævintýraferð í Mongólíu eða af náttúruperlum Íslands.

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.