Þegar ég spyr vini og vandamenn hvað standi í vegi fyrir ferðalögum út fyrir landsteinanna, þá kemur yfirleitt alltaf sama svarið:

“Peningar!”

“Ég á einfaldlega ekki fyrir því að ferðast.”

Ferðalög kosta vissulega sitt en ég reyni að benda fólki á þá staðreynd að þú þarft ekki að vera ríkur til að ferðast!

Hvernig fer maður þá að því?

Settu ferðalög í fyrsta sæti! Ef það er ekki í forgangi, þá munt þú alltaf finna aðra hluti til að eyða í og aldrei eiga “nóg” til að ferðast. Í stað þess fjúka peningarnir í nýjustu Apple græjuna eða vinsælustu Nike skóna.

Að sjálfsögðu er fólk misjafnlega vel statt og margir í erfiðari stöðu. Minn boðskapur er einungis sá að þú þarft ekki að vera ríkur til að ferðast. Það eru til ótal mismunandi leiðir til að flýja litla Ísland og lenda í ævintýrum úti í heim, jafnvel þótt þú sért á lágmarkslaunum eða með námslán á bakinu.

Hér koma nokkur hagnýt ráð hvernig þú getur ferðast um heiminn, án þess að selja úr þér annað nýrað:

Starfaðu erlendis 

Það eru ótal starfstækifæri í boði erlendis svo lengi sem þú ert ekki “pikkí” – þetta verður hvort sem er aldrei framtíðarstarfið þitt. Einungis tækifæri til að koma þér út í heim og kynnast nýju landi. Starfstækifærum erlendis fylgja oft ýmis fríðindi svo sem frítt eða ódýrt húsnæði, uppihald og tengslanet. Það að starfa erlendis mun umbylta hugmyndum þínum um ferðalög sem einskorðast hjá mörgum við 5 stjörnu lúxushótel í vernduðu umhverfi. Þú eignast vini til framtíðar, lærir hugsanlega nýtt tungumál og kynnist menningu landsins af meiri dýpt.

Hér eru nokkur dæmi um starfshugmyndir erlendis sem krefjast ekki alltaf háskólagráðu eða fyrri starfsreynslu:

  • Bar- eða veitingaþjónn
  • Herbergisþerna
  • Enskukennsla
  • Au pair
  • Fararstjóri
  • Starf á bóndabýli eða vínekru (mikið framboð í Ástralíu og Nýja-Sjálandi)
  • Starf á skemmtiferðaskipi eða snekkju
  • Starf á skíðasvæði (mikið framboð í Austurríki og Þýskalandi)
  • Hundapössun (já það er hægt!)

Margir íhuga þó ekki þennan kost og telja það of mikið vesen að fara að vinna erlendis. Það er algengur misskilningur, þetta er einungis spurning um að vera opinn fyrir ólíkum störfum og einfaldlega senda inn umsókn.

Sjálf hef ég talsverða reynslu af störfum erlendis, en ferðbakterían sótti á mig snemma. Á mínum menntaskólaárum svalaði ég ferðaþránni á sumrin og starfaði meðal annars sem herbergisþerna í afskekktum firði í Noregi, Geiranger. Þjónn í strandbænum Kristiansand og síðar meir sem farastjóri í Tyrklandi.

Að vinna í Geiranger firði í Noregi Fararstjórn í Tyrklandi

Flestir samstarfsfélagar mínir í Noregi voru einungis í “vinnustoppi” frá áralöngum heimsreisum. Þar störfuðu Frakkar, Ástralir, Svíar, Eistar og Ný-Sjálendingar, allir með sama markmið í huga: Að halda áfram að ferðast!

Fylgstu með flugfélögunum

Fáðu fyrstur fréttir af flugtilðboðum með því að skrá þig á póstlista hjá helstu flugfélögunum. Að bóka flugin fram í tímann getur einnig sparað talsverðar upphæðir. Mundu einnig að nýra þér leitarvélarnar eins og

Þær leita í gegnum hundruði flugfélaga á nokkrum sekúndum og finna besta verðið á milli tveggja áfangastaða.

Bókaðu flugin þín með 3-4 mánaða fyrirvara frá litlum flugvöllum 

Reynslan hefur sýnt að þú færð bestu tilboðin með því að bóka flugin með 3-4 mánaða fyrirvara. Ekki gleyma því að fletta upp minni flugvöllum í nærliggjandi bæjum. Lággjalda flugfélögin fljúga ekki alltaf milli stærstu borganna. T.d. ertu á leið til Dubai? Fljúgðu þá til Sarjah (bær í 30 km fjarðlægð) í stað þess að fljúga til flugvallarins í Dubai og sparaðu þér talsverða upphæð.

Nýttu þér ókeypis heimagistingu hjá www.couchsurfing.com

Couchsurfing er samfélag fólks sem nýtur þess að fá gesti í heimsókn og hýsa ferðamenn ókeypis. Ekki er krafa um að þú gerir slíkt hið sama í þínu heimalandi, en þó er vel séð að launa greiðann áfram (pay it forward).

“Sófinn” sjálfur getur verið afar mismunandi milli gestgjafa. Sumir bjóða þér stórt og gott rúm í einkaherbergi, aðrir gefa þér dýnu til að sofa á í stofunni, meðan sumir standa undir nafni vefsíðunar og leyfa þér að detta á sófann. Á mínu mánaðar ferðalagi um Íran komst ég alveg hjá hótelkostnaði með hjálp couchsurfing, hvar á landinu sem ég var, en sum lönd eru virkari en önnur á vefsíðunni.

Couchsurfing í Dubai – ekki slæmt!

Megintilgangur síðunnar er að kynnast fólki um allan heim, bera saman ólíka menningarheima og eignast nýja vini. Að gista hjá heimafólki getur gert dvöl þína ævintýralega og oft færðu ómetanleg ráð frá heimafólki sem ekki finnast í túristabæklingunum. Þar að auki felst lítil áhætta í að gista hjá ókunnugu fólki þökk sé virku umsagnarkerfi síðunnar.

Ekki týpan í að Couchsurfa? Prófaðu AirBnb

Á fáum árum hef­ur starf­semi Airbnb vaxið gíf­ur­lega, en ein­stak­ling­ar geta þar leigt her­bergi eða heil­ar íbúðir víðast hvar um heim­inn af öðru fólki, án þess að fara gegn­um hót­el eða önn­ur ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tæki. Í flestum löndum er mikið af frábærum möguleikum á tvöfalt til þrefalt ódýrara verði en hótel. Sjálf hef ég frábæra reynslu af Airbnb og hef nýtt mér þann ferðamáta í Canada, Madrid, Kaupmannahöfn, New York og víða annars staðar. Airbnb er mun formlegra en Couchsurfing og yfirleitt leggja gestgjafarnir mikið upp úr því að hafa aðstöðuna sem besta og gefa þér gott svigrúm en góð ráð þegar þú þarft á þeim að halda.

Húkkaðu far eða taktu rútu/lest!

Leigubílar geta orðið dýrir mjög fljótt og oft rukka þeir túrista hærra verð. Biddu alltaf um að leigubílamælirinn sé notaður, annars skaltu semja um verðið fyrirfram. Ef þú getur er hins vegar best að sniðganga leigubílanna, því lestar og rútur eru alltaf ódýrari kostir. Þú mátt þó búast við að ferðin taki aðeins lengri tíma fyrir vikið, en til hvers að vera stressa sig? Í flestum löndum er einnig tiltölulega áhættulítið að ferðast um á puttanum. Þannig spararu náttúrulega allan peninginn og kynnist oft skemmtilegu fólki í leiðinni.

Notaðu stúdentaafslátt og önnur afsláttarkort

Ert þú námsmaður, kennari, eða undir 26? Velkominn í heim 50% afsláttar! Sæktu um alþjóðlegt studenta/kennara/ungmennakort áður en þú heldur af stað.

“Passaðu” heimili einhverns – Housesit

Áttu ekki efni á því að fara í frí erlendis? Hvernig væri þá að passa heimili einhvers á meðan þau fara erlendis. Þú getur skráð þig á vefsíðunum hér að neðan. Það eru ótal áfangastaðir í boði og áður en þú veist af ertu komin til Toscana með frítt heimili og sól í hjarta.

Ofanálag: þá ertu með eldhús þar sem þú getur eldað þinn eigin mat.

Hér eru nokkrar vefsíður sem bjóða upp á þessa þjónustu:

Houseswap

Býrðu í ágætis húsnæði á fínum stað í miðborginni – eða jafnvel úti á landi? Hvernig væri þá að skrá húsið sitt á Houseswap fyrir sumarið. Ferðamönnum á Íslandi er stöðugt að fjölga og hótelverðin í Reykjavík fara hækkandi. Það er aldrei að vita nema fjölskylda í Montpelé í Frakklandi dreymi um nokkrar vikur á Íslandi. Þá einfaldlega skiptið þið um húsnæði!

Lærðu að prútta

Aldrei sætta þig við fyrsta tilboð. Í menningu margra landa er svigrúm fyrir afslátt af uppgefnu verði. Vertu því ekki feiminn við að prútta, þú ert ekki að fara að móðga neinn. Ágæt regla er að helminga fyrsta tilboð og sjá hvert það leiðir þig. Ef þú ert ekki sáttur gaktu þá í burtu. Oftar en ekki færðu sölumanninn til þess að hlaupa á eftir þér með enn lægra verð. Engar áhyggjur, þetta verður auðveldara með tímanum.

Nýttu þér WWOOFing

WWOOFing Útvegar þér starf á bóndabýli (mikið framboð í Ástralíu og Nýja-Sjálandi). Vinnan er ólaunuð en þér er útvegað ókeypis húsnæði og allt fæði og uppihald. Þú færð frí um helgar þar sem þú getur nýtt tækifærið og ferðast um landið. Auk þess færðu daglega útivist, eignast nýja vini, lærir að takast á við ný verkefni og mjög líklega sólskyn og gott veður!

Borðaðu götumat!

Ekki hræðast sveitta götusalann á horninu. Ef þú sleppir því að borða götumatinn, þá missir þú af matarmenningu landsins. Finndu stað sem er vinsæll meðal innfæddra, þar eru minni líkur á að hráefnið sé gamalt eða búið að standa lengi. Oftar en ekki færðu dúndur máltíð á hlægilegu verði!

 Andri smakkar á chilli pulsu í Madrid

About The Author

Ása Steinarsdóttir
Ritstjóri og færsluhöfundur

Ása er ein af þremur eigendum Gekkó og rekur einnig ferðabloggið FromIceToSpice Ása er þekkt fyrir að flakka um allan heim og grípa ótrúlegustu augnablikin á filmu, hvort sem það er í ævintýraferð í Mongólíu eða af náttúruperlum Íslands.

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.