Myanmar hefur á skömmum tíma færst efst á listann yfir helstu áfangastaði Suðaustur Asíu. Síðasliðin ár hefur landið verið smám saman opnað fyrir ferðamönnum sem sækja þangað spenntir til að kynnast menningu og þjóð sem lengi vel hefur verið hulin umheiminum. 

Útsýni yfir Bagan, hér finnast yfir 2.500 mismunandi hof

Útsýni yfir Bagan, hér finnast yfir 2.500 mismunandi hof

Í Myanmar finnur þú brosandi heimamenn, ósnortnar strendur og heillandi fjallaþorp svo fátt eitt sé nefnt. Landið gætir enn lítilla utanaðkomandi áhrifa og því mikilvægt að aðlagast menningu og siðum landsins. Hér finnur þú engin kunnuleg merki á borð við McDonalds eða Starbucks (því miður opnaði þó fyrsti KFC búllan í síðustu viku). Búddismi er ríkjandi trú þjóðarinnar en hvergi í heiminum eru samankomin eins mörg hof og musteri á einu svæði.

Munkur umkringdur musterum (e. pagodas) í þorpinu Indein nálægt Inle Lake.

Munkur umkringdur musterum (e. pagodas) í þorpinu Indein nálægt Inle Lake.

Flestir hefja dvölina sína í hinni iðandi stórborg, Yangon, sem státar af fallegum almenningsgörðum, gullnum musterum, byggingum frá nýlendutímum Breta og líflegum götumörkuðum sem bjóða upp á framandi götumat.

Hin mikilfenglega Shwedagon Pagoda, staðsett í hjarta Yangon

Hin mikilfenglega Shwedagon Pagoda, staðsett í hjarta Yangon

Eftir 9 klst flug frá Japan lentum við þreytt en spennt fyrir komandi ævintýrum í landinu. Gisting í Myanmar er mun dýrari samanborið við önnur lönd í Suðaustur Asíu, aðallega vegna þess að ekki hefur tekist að byggja nægilega mörg hótel til að svara eftirspurn hins sívaxandi ferðamannastraums.

Vanalega gistum við á farfuglahótelum og gistiheimilum þegar við ferðumst til lengri tíma en þess á milli verða fínni hótel fyrir valinu sem að maður varla stígur út fyrir til þess að njóta þess í botns. Í Yangon fengum við þau forrétindi að gista á Sule Shangri-la, einu helsta 5 stjörnu hóteli borgarinnar en í tilefni þess langar mig að deila með ykkur dvölinni á þessu draumahóteli. 

Sule Shangri-La – Yangon

Okkar fyrstu kynni af hótelinu voru ekki af verri endanum, um leið og við nálguðumst andyrið mættu okkur brosmildir starfsmenn og buðust til að taka töskurnar fyrir okkur. Á meðan innrituninni stóð nutum við þess að slaka á og drekka nýpressaðan appelsínusafa í björtu anddyri hótelsins. 

Herbergið

Okkur var fylgt upp á 13.hæð þar sem herbergið beið okkar. Við vorum bæði agndofa þegar við opnuðum dyrnar á herberginu. Herbergið var fallega innréttað, með stórum gluggum sem hleypa inn fallegri dagsbirtu og gefa útsýni yfir alla borgina. Á borðinu beið okkar vel útilátinn ávaxtakarfa og handskrifað bréf sem bauð okkur velkomin á hótelið. Herbergið var útbúið ölli því sem okkur gæti mögulega vantað; smekkleg kaffiaðstaða, innrammaður flatskjár, heit sturta með góðum þrýsting, sloppar, inniskór og svo mætti lengi telja. Við nutum útsýnisins með rjúkandi heitt kaffi og gæddum okkur á ferskum “dragon fruit” sem ég hafði aldrei smakkað áður.

Morgunmaturinn

Eftir endurnærandi svefn héldum við spennt niður í morgunmat. Við urðum ekki fyrir vonbrigðum, úrvalið var endalaust og hráefnið fyrsta flokks; ferskir ávextir frá mörkuðum borgarinnar, ferskt pasta, omelettur, sushi og heimsklassa kokkar tilbúnir að elda ofan í þig allt eftir eigin óskum. Við vorum sérstakleg ánægð með gríska ferskjujógúrtið sem var borið fram í litlum sætum krukkum, en það getur verð erfitt að finna almennilegar mjólkurvörur í Asíu. Þrátt fyrir að vera pakksödd gátum við ekki látið eftirréttardeildina í friði. Þar stendur kokkur og bakar fyrir þig belgískar vöfflur, pönnukökur, múffur og ýmislegt annað bakkelsi.

Við nutum þess að sitja í rúmlega klukkustund og gæða okkur á mismunandi réttum og fylgdumst með mannlífinu fyrir utan gluggan. Á meðan stjönuðu þjónarnir við okkur og færðu okkur könnu af tei og nýlagaðan cappuccino

Sundlaugin

Eftir orkuríkan morgunmat ákváðum við að slaka á við sundlaugabakkann á 5 hæð. Á þessum tíma árs er regntímabil í Myanmar sem er sérstaklega slæmt í Yangon. Við vorum hins vegar heppin þennan dag og fengum nokkra langþráða sólargeisla. Á svæðinu eru tvær sundlaugar, ein stærri og dýpri sem hentar vel til sunds, en önnur minni og grynnri fyrir krakkana og tankóngana. Ef þú verður þyrstur getur skellt þér á sundlaugarbarinn og pantað kokteila eða Myanmar lager á krana. Okkur líkaði einna helst hvernig veggir svæðisins voru þaktir pálmatrjám á alla kanta sem gefur svæðinu notalega frumskógarstemmningu. Þú virkilega gleymir því að þú sért í miðju stórborgarinnar.

Tips: Ef þið eruð að spara getið þið notið dagsins við sundlaugabakkann og vafrað um á háhraða neti hótelsins fyrir 10$, án þess að gista á hótelinu.

The Peacock Lounge – Anddyrið

Eitt af uppáhaldsstöðum hótelsins var afslöppunarrýmið í anddyrinu sem er innréttað í páfuglastíl. Við gátum notið þess að sitja í þægilegum sófum, drukkið te borið fram í konunglegu stelli og skipulagt næstu vikur með hjálp háhraða netsins (sem er að öðru leyti gagnslaust á flestum gistiheimilum landsins). Hægt er að panta sér drykki og ýmsa rétti af matseðli a la carte til kl 23 en einnig er sérstök Gourmet Shop við hlið anddyrsins þar sem hægt er að panta sér gómsætar kökur og ilmandi kaffi. 

Líkamsræktin

Oft nær maður lítið að hreyfa sig almennilega þegar maður ferðast. Maður ætlar sér það alltaf fyrst þegar maður leggur af stað, en oftast tekur letinn yfir og hinar endalausu matarfreistingar. Hitinn hjálpar ekki heldur til. Helst eru það axlirnar, bakið og fæturnir sem styrkjast mest enda ófáir tímar sem fara í göngur með þunga bakpoka. Við ákváðum því að nýta okkur aðstöðuna og skelltum okkur í “gymmið”, tókum nokkra spretti og pumpuðum járni. Aðstaðan var ekki sú stærsta en þó voru öll tækin fyrsta flokks. Ef þú þarft einhverja aðstoð getur alltaf spurt einkaþjálfara hótelsins.

Heilsulindin

Heilsulind hótelsins býður upp á ýmsar tegundir andlitsmeðferða og nudda. Á meðan við skoðuðum aðstöðuna var okkur boðið unaðslegt engifer-límónu te sem reif vel í kokið. Meðferðirnar fara fram í jarðlituðum og hlýlegum einkaherbergjum þar sem loftið angar af viðarkeim. Þetta er sannarlega hinn fullkomni staður til að slappa af og hafa það notalegt. Ef þú ert ekki stemmdur fyrir því að fara út af sjálfu hótelherberginu geturu alltaf pantað nuddið beint þangað.

Barinn

Gallerý barinn á annarri hæð er fullkominn staður til þess að fá sér drykk eftir langan göngudag um borgina. Barinn býður upp á klassíska kokteila (mæli með margarítunni!) og marga smárétti í tapas-stíl fram til kl 01:00.

Tips: Happy Hour, 2 fyrir 1 á öllum drykkjum frá kl 17-19:30.

Staðsetning

Staðsetning hótelsins verður ekki betri enda eins nálægt miðju borgarinnar og hægt er. Nærliggjandi götur iða af mannfólki og gómsætum götumat. Sule musterið er í augnsýn og Bogyoke markaðurinn er rétt handan við hornið þar sem þú getur verslað listmuni, sjaldgæfa steina og hefðbundin Myanmar klæðnað eða svokallaðan longyi sem er vafinn utan um mittið. 

Ef þú ert að leita að ekta Myanmar mat geturu skellt þér á Rangoon Teahouse sem er í 10 mín göngufjarlægð og pantað þér Phat Tok (gerjað telaufssalat) eða Pao Si (soðin svínamalla í brauði).

Ef leið þín liggur til Myanmar á næstunni, þá mæli ég hiklaust með því að gista á Sule Shangri-La!


Höfundur: Ása Steinarsdóttir

Ferðabloggari á fromicetospice.com

About The Author

Ása Steinarsdóttir
Ritstjóri og færsluhöfundur

Ása er ein af þremur eigendum Gekkó og rekur einnig ferðabloggið FromIceToSpice Ása er þekkt fyrir að flakka um allan heim og grípa ótrúlegustu augnablikin á filmu, hvort sem það er í ævintýraferð í Mongólíu eða af náttúruperlum Íslands.

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.