Snæfellsnes er ótrúlega fallegur landshluti og jafnframt einn sá elsti. Við fórum í smá roadtrip
þangað fyrir stuttu sem var algjörlega frábært! Á Snæfellsnesi er mjög fjölbreytt landslag og því
hægt að skoða margs konar náttúruperlur á stuttum tíma.

Ferðalagið tók samt sem áður allan daginn, frá klukkan 8:00 um morguninn til 23:00 um kvöldið en við stoppuðum líka frekar lengi á hverjum stað og tókum myndir. Við enduðum á því að keppa við dagsbirtuna þar sem við fórum í þessa ferð um hávetur, svo við mælum með að fara frekar að sumri til þegar það er bjart allan sólarhringinn. Staðirnir sem við skoðuðum á leiðinni voru Landbrotalaug, Kirkjufell, Arnarstapi og Rauðfeldsgjá.

Landbrotalaug

Fyrsta stoppið okkar var Landbrotalaug sem er æðislegur náttúrupottur aðeins 2 klst frá Reykjavík. Hann er frekar lítill og rúmar aðeins um 2-3 mannsekjur en sömuleiðis er hann einstaklega
þægilegur og hitastig vatnsins um 38°C. Frá honum er frábært útsýni yfir fallegt landslag svæðisins og því tilvalið að fara þangað og njóta í smá tíma.

Hægt er að leita að Landbrotalaug á Google maps en til þess að komast að pottinum þarf að beygja af Snæfellsnesvegi inn á malarveg sem er torfarinn og því betra að vera á góðum bíl. Á þessum vegi munuð þið fara framhjá eyðibýli og síðan sjá bílastæði þar sem hægt er að leggja bílnum. Potturinn er frekar falinn en ef þið gangið beint áfram frá bílastæðinu og farið yfir lítinn læk ættuð þið að koma augum á hann. Heppnin var svo sannarlega með okkur því við vorum alveg ein allan tímann! Þar sem við fórum um hávetur var samt ískalt úti svo við þurftum að skipta um föt inni í bílnum og hlaupa eins og fætur toguðu á sundfötunum í pottinn.

Á sama svæði er líka önnur náttúrulaug sem hægt er að baða sig í en við lögðum ekki í að fara ofan í hana þar sem það var erfitt að komast að henni útaf snjó. Hún er til vinstri frá bílastæðinu og þið getið þekkt hana á krana sem er á bakkanum.

Kirkjufell

Eftir sundsprettinn var næsti áfangastaður Kirkjufell og Kirkjufellsfoss en það tekur um klst að keyra þangað frá Landbrotalaug. Kirkjufell er eitt fallegasta og mest myndaða fjall Íslands en það er staðsett rétt fyrir utan Grundafjörð. Umhverfis það eru nokkrar mjög fallegar gönguleiðir og mikið um fuglalíf á svæðinu.

Við ákváðum að skoða fjöruna sem er rétt áður en maður keyrir til vinstri að Kirkjufellsfossi og sáum alls ekki eftir því. Frá fjörunni er mjög fallegt útsýni yfir fjallið og því tilvalinn staður fyrir myndatökur. Næst skoðuðum við fossinn sjálfan og vorum aftur mjög heppin þar sem lítið var um fólk hjá honum og gátum við því notið þess að vera þarna í ró og næði. Við mælum eindregið með því að gefa sér tíma í að skoða þetta fallega svæði.

Arnarstapi

Það tekur tæpan klukkutíma að keyra að Arnarstapa frá Kirkjufelli og er leiðin þangað gífurlega
falleg. Við hefðum óskað þess að hafa haft meiri tíma til þess að skoða svæðið betur í kring um Arnarstapa en þetta er einn fallegasti staður á Íslandi að okkar mati. Þar sem dagsbirtan var að
renna okkur úr greipum skoðuðum við því aðeins Gatklett sem er klettur ekki langt úti á hafi
þar sem sjávarföll hafa hoggið gat í bergið. Næst þegar við förum þangað munum við líklegast
tjalda yfir nótt vegna þess að það eru fjölbreyttar gönguleiðir í kring og margt annað að skoða.

Rauðfeldsgjá

Á leiðinni heim kíktum við svo inn í Rauðfeldsgjá sem er rétt fyrir utan Arnarstapa. Ástæðan fyrir því að gjáin heitir Rauðfeldsgjá er mjög dramatísk fjölskyldusaga um bræðurna Bárð og Þorkel og börnin þeirra en hægt er að lesa hana hér fyrir neðan. Hægt er að ganga inn í gjána og þar má finna fallegan lítinn foss. Ef þið leggið leið ykkar inn í þessa gjá er betra að vera vel búinn og nauðsynlegt að klæðast vatnsheldum gönguskóm þar sem það rennur lækur í gegn um hana sem maður þarf að vaða í.

Snæfellsnes kemur skemmtilega á óvart og er einn af okkar uppáhalds stöðum. Við hefðum
klárlega viljað kanna svæðið betur ef við hefðum haft tíma en það gefur okkur góða ástæðu til
þess að fara þangað aftur.

Endilega tékkið á þessari ferð í story sem heitir „Snæfellsnes” á Instagraminu okkar!

Sagan um Rauðfeldsgjá

Eitt sinn voru tveir bræður, Bárður og Þorkell. Bárður sem var hálfur maður og hálft tröll átti margar fallegar dætur og Þorkell átti tvo syni, þá Rauðfeld (12 ára) og Sölva (11 ára). Þeir bræður voru einn daginn að leika sér við eina af dætrum Bárðar sem hét Helga, nálægt ísjaka. Rauðfeldur elsti sonur Þorkells var mikill prakkari og ýtti Helgu á ísjakann sem flaut í burtu með hana langt út á sjó.

Bárður, faðir hennar varð svo illur að hann tók syni Þorkels upp á klett í grendinni og henti Sölva niður hann, sem seinna var gefið nafnið Sölvahamar. Síðan tók hann Rauðfeld og henti honum inn í gjá sem síðar var gefið nafnið Rauðfeldsgjá. Eins og margar íslenskar sögur, endar þessi ekkert
betur en þannig að Bárður er sagður hafa gjörsamlega misst vitið eftir þetta atvik, fundið sér íshelli og búið þar til dauðadags. Dóttir hans Bárðar, sem átti að hafa dáið, lifði af, en hún flaut á ísjakanum til Grænlands þar sem hún giftist Eiríki rauða.

 

Takk fyrir að lesa!

Tanja Sól & Sverrir Arnar
@Icelandic_Travelers

 

Áhugaverðar nýjar greinar á Gekkó !

Einnota plast: Það sem þú getur gert til að stuðla að umhverfisvænni ferðamennsku á ferðalagi

Suður-Frakkland í allri sinni dýrð!

Að ferðast með börn: Ferðaráð fyrir fjölskyldur

Dagný Sylvía Sævarsdóttir: Hvers vegna fer ég aldrei í dýragarð?

 

 

About The Author

Tanja og Sverrir eru ferðaglatt par sem finnst fátt skemmtilegra en að skoða nýja staði saman. Frá því þau byrjuðu saman hafa þau ferðast mikið um Ísland jafnt og aðra staði í Evrópu. Þau hafa mikinn áhuga á ljósmyndun og reyna að fanga öll þeirra dýrmætustu augnablik á filmu. Auk þess að blogga hér eru þau með Instagramið @icelandic_travelers þar sem hægt er að fylgjast nánar með ævintýrum þeirra.

Related Posts

3 Responses

  1. Cialischeap

    Tanja Sól & Sverrir Arnar, thanks a lot for the article post.Much thanks again. Fantastic.

    Svara

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.