Morskie Oko er eitt af fallegri stöðuvötnum sem finnast í Evrópu, en það er staðsett í suðuhluta Póllands og er eitt aðal aðdráttarafl ferðafólks á svæðinu. Það liggur um 1400 m yfir sjávarmáli og er umkringt háum Tatra-fjöllum Karpatafjallagarðsins, rétt við landamæri Slóvakíu. Sögurnar segja að stöðuvatnið sé tengt með neðanjarðargöngum alla leið út á haf og dregur vatnið því nafn sitt af þeim þjóðsögum, en Morskie Oko þýðir bókstaflega ,,auga hafsins”.

Ég hef í gegnum árin verið tíður gestur til Póllands, þar á meðal eytt einni önn í Varsjá þar sem ég var í skiptinámi frá HÍ, en í öll þau skipti sem ég hef farið þangað komst ég aldrei nægilega langt með hugmyndina að ganga að Morskie Oko til að það yrði eitthvað úr því. Það var ekki fyrr en í vor, þegar ég fór í ógleymanlega vinkvennaferð til Kraká, sem ég gerði eitthvað meira en að hugsa um Morskie Oko og dreif mig loksins af stað. Þetta var tilvalið tækifæri þar sem ég átti tvo daga aflögu eftir að vinkonurnar flugu til baka og hafði því nægan tíma til að skoða þennan einstaklega fallega stað sem Tatra-svæðið er, en það er ekki í nema tæpri tveggja tíma fjarlægð frá Kraká.

Til að komast að stöðuvatninu þar fyrst að koma sér til Zakopane, eins þekktasta fjallaþorps suður Póllands, en það er mínu mati eitt og sér nægilega góð ástæða til að heimsækja svæðið. Þar er að finna ýmsar gönguleiðir í kring, skemmtilegan miðbæ með veitingastöðum og annarskonar búðum, pöbbum og ákveðinni fjallaþorps stemmingu. Frá miðbæ Zakopane ganga litlar rútur áleiðis að vatninu, en einnig er hægt að hoppa upp í næsta leigubíl fyrir ekki svo mikinn pening. Þar sem að ég var ein á ferð notaði ég almenningssamgöngur og tók það því rúman hálftíma að komast að upphafsstað göngunnar, en ekki er leyfilegt að keyra að vatninu. Frá þeim stað sem rútan stoppar tekur um tvo klukkutíma að ganga að Morskie Oko, um 9 km aðra leið og 300 m hækkun. Gangan sjálf er ekki svo erfið og er aðgengi þar fínt, salernisaðstöður af og til og vegurinn malbikaður svo gott sem alla leið. Það er eitthvað sem ég bjóst ekki alveg við, en gerði gönguna töluvert einfaldari og ég átti því auðveldara með að hlaupa af mér alla hópana af skólakrökkum sem flykktust að vatninu.

Ef það er eitthvað sem ég mæli með fyrir þá sem ætla að skoða Morskie Oko, þá er það að leggja snemma af stað – og þá meina ég snemma. Helst strax við sólarupprás, en rúturnar frá Zakopane byrja að ganga frá klukkan 6 um morguninn. Það var planið hjá mér en þar sem ég er allt annað en morgunhani var ég komin upp í rútu um klukkan 8. ,,Þó það” hugsaði ég, en um leið og ég byrjaði gönguna áttaði ég mig á því hvers vegna mælt er með því að leggja af stað eins snemma og mögulegt er. Mínir löngu leggir tóku mig fram úr ekki einum, ekki tíu, heldur tugi skólahópa og annarra ferðamanna sem gengu að vatninu. Þrátt fyrir að hafa mætt að vatninu þreytt og sveitt, þá voru þessar fimmtán mínútur sem ég náði að hlaupa mér inn, þó vel þess virði.

Að hafa stöðuvatnið svo gott sem út af fyrir sig, að njóta þess að anda dýrðina inn og kyrrðina sömuleiðis.

Það byrjaði fljótlega að rigna en þar sem ég var komin alla þessa leið ákvað ég samt sem áður að drífa mig af stað í kringum vatnið sem tók um klukkustund, en hægt er að fara í lengi göngu að næsta stöðuvatni. Ég hafði því miður ekki tíma til að fara alla leið þangað, en skilst að það sé falleg gönguleið og þess virði að skoða. Við Morskie Oko er fallegur fjallakofi þar sem hægt er að bóka gistingu, auk þess sem gestir og gangandi geta keypt ýmsan varning og minjagripi eða fengið sér týpískan pólskan mat á veitingastaðnum.

Hægt er að skoða Morskie Oko sem dagsferð frá Kraká, bæði á eigin vegum eða í gegnum ferðaskrifstofu, en ég mæli með að taka meiri tíma og gista að minnsta kosti eina nótt í Zakopane. Ef það gengur ekki er hægt að taka rútu eldsnemma frá Kraká og til baka um kvöldið, en gott er að vita hvernær síðasta rútan fer frá Morskie Oko til að komast örugglega til baka!

About The Author

Selma Kjartansdóttir
Færsluhöfundur

Selma Kjartans

Related Posts

2 Responses

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.