Ég er nýkomin heim úr helgarferð til Berlínar en þetta er í fyrsta skipti sem ég ferðast til Þýskalands. Ferðin gekk alls ekki áfallalaust fyrir sig en á heimleiðinni var fluginu okkar aflýst (Við flugum með AirBerlín sem ég mæli alls ekki með – enda fyrirtækið orðið gjaldþrota)  og við þurftum að redda okkur heim með átta tíma lest frá Berlín til Kaupmannahafnar og þaðan vorum við í öruggum höndum Icelandair á leiðinni heim. En allt er gott sem endar vel! Ég ætla hinsvegar að deila nokkrum hlutum úr ferðinni sem mér fannst ómissandi. Ég vona að þetta hjálpi ykkur eitthvað með ykkar ferð til Berlínar!

Kreuzberg/Berlínur – Íslensk leiðsögn

Ég rakst á Berlínur fyrir nokkrum árum og sór að ég myndi nýta mér afþreyingu þeirra þegar ég færi til Berlínar. Ég fór í ferð sem heitir MúltíKúltí en hún stóðst allar mínar væntingar og rúmlega það. Góð skemmtun sem tók um 2 klukkutíma. Hinrik leiðsögumaður fór með okkur í gegnum Kreuzberg hverfið og kynnti okkur fyrir menningunni, matnum og síðast en ekki síst söguna sem hverfið býr yfir. Mér fannst magnað að fá að hlusta á Hinrik sem hefur bersýnilega einlægan áhuga á Berlínarborg og maður fann það smitast yfir á mann sjálfan. Við enduðum svo í Mathalle Neun sem er mathöll í Kreuzberg þar sem við gæddum okkur á ólívubrauði og rauðvíni. Frábær staður til að enda ferðina! Mæli mikið með.

KatzOrange

Veitingastaður sem ég fékk ábendingar frá nokkrum um að borða á. Ekki hefðbundin en skemmtileg upplifun. Ég borðaði blómkálshaus með bernaise sósu í matinn (er ekki einu sinni smá að djóka) en við fengum stórt hringborð og hlógum af þessu með góðan drykk í hönd. Þarna eru mikið af grænmetisréttum en einnig eitthvað fyrir þá sem borða kjöt og fisk. Ég myndi segja að þetta væri líka must í Berlín, þó svo að ég hafi nú smakkað betri mat! Hann er í dýrari kantinum miðað við Berlín en samt á mjög viðráðanlegu verði.

Transit

Þetta er einn besti veitingarstaður sem ég hef borðað á. Í lífinu! Ef þið eruð á leiðinni til Berlínar pantið borð sem fyrst. Mjög skemmtilegur (en samt hávær) staður á tveimur stöðum í Berlín. Ég fór á þann staðsettan í Mitte. Það er mjög skemmtilegt fyrirkomulag á staðnum. Þar sem hann er frekar hávær og eiginlega vonlaust að tala við þjónana er manni afhent blað þar sem þú velur réttina sjálfur og afhendir svo blaðið. Staðurinn er smáréttastaður og mælt er með 3-4 réttum á mann. Svo er hann líka mjög sanngjarn í verði. OG þeir bjóða uppá Tiger bjórinn. Sem er alltaf glaðlegt fyrir gamla Asíureisufarann.

Clärchens Ballhaus

Mjög skemmtileg upplifun að fara á Clärchens Ballhaus. Þarna eru kenndir klassískir dansar kl 19:00 og svo breytist staðurinn í dansstað kl 20:00. Þetta er vinsæll staður til að fara á sem hópur og vínarsnitselið eflaust vinsælast á matseðlinum. Ég fékk mér hinsvegar Parmapizzu sem gaf ekkert eftir og fær fullt hús stiga hjá mér. Þið vitið. Manneskjunni sem borðar ekki einu sinni pizzu! Ég vissi það ekki þá en á efri hæð hússins er gamall salur þar sem Hitler fór oft með ræður og ýmis fundarhöld. Þarna eru ummerki um byssuskot og því óhætt að segja að staðurinn eigi sér langa sögu.

Hverfið Mitte

Við leigðum Airbnb íbúð í Mitte sem er í 20 mínútna göngufæri frá Alexanderplatz. Þetta hverfi kom mikið á óvart en það er eru margar litlar götur með skemmtilegum og persónulegum bútíkum. Allir veitingarstaðirnir sem ég nefni hér að ofan voru innan við kílómeter frá íbúðinni okkar þannig að við gátum farið fótgangandi sem er alltaf skemmtilegra heldur en að eyða tíma í að bíða eftir leigubíl/lest. Ég tók því miður ekki margar myndir af hverfinu sjálfu en ég mæli mikið með að gista í því hverfi.

& svo má ekki gleyma þessu klassíska…

… Auðvitað nefni ég líka Berlínarmúrinn, minnisvarða gyðinga, Check point Charlie og Brandenburgar hliðið. Mér finnst það svolítið ,,goes without saying” dæmi. En Berlín á sér ótrúlega þunga sögu sem einkennist bæði af sorg og sigrum.

EN smá tips til ykkar…

Það sem kom mér helst á óvart var hversu léleg leigubílamenningin er. Þarna vorum við 7 að ferðast og þurftum oftar en ekki að taka tvo leigubíla. Það gekk mjög illa og nánast ómögulegt fyrir leigubílstjóra að hringja á annan bíl. Eins hringdum við oft og pöntuðum bíl en þeir komu aldrei. Það er lítil sem enginn Über menning en ég náði einstöku sinnum að bóka bíla en sá oftast bara 1-2 á kortinu sem er mjög sérstakt. Það er mér fyrirmunað að skilja afhverju svona stór borg sé með svona lélega leigubílamenningu.

Annars er ég líka á leið til Berlínar í febrúar í vinnuferð. Ég ætla að reyna prófa tvo hádegisstaði sem og fara í fleiri ferðir með Berlínum. Mjög spennt og hlakka til að leyfa ykkur að fylgjast með!

Guðfinna Birta

Ég er á instagram x

About The Author

Guðfinna Birta
Ritstjóri og færsluhöfundur

Guðfinna er einn eigandi Gekkó með endalausa þörf fyrir ferðalögum og oftar en ekki með 3-4 ferðir í pokahorninu. Hefur ferðast mestmegnis í Bandaríkjunum og Asíu - en tekið ástfóstri við Mið-Austurlöndin síðastliðin ár. Guðfinna talar líka um ferðalög með börn, enda engin ástæða fyrir því að hætta ferðast til framandi landa þó það fjölgi í fjölskyldunni.

Related Posts

One Response

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.