Ég er einstaklega mikill matarperri og alveg sérstaklega þegar kemur að taílenskum mat. Langflestir Íslendingar sem ég hef komist í kynni við tala eingöngu um Pad Thai og Massaman Karrý en ég vil alveg hvetja fólk að fara út fyrir þá rétti. Taílenskur matur er svo miklu meira en það! Í þessum pistli hef ég sett saman nokkra “Set Up” af réttum sem eru í miklu uppáhaldi hjá mér og hvet ég alla til að prófa.

Ég nefni sumsstaðar alveg sérstakar staðsetningar, eins og Sukumvit 38. En Sukumvit 38 er ein frægasta matargatan í Bangkok, þar sem bestu götumarkaðsmennirnir eru saman komnir á einum stað. Þar er hægt að finna allt frá Peking Önd í Mango Sticky Rice. Ég hvet alla að kíkja þangað og prófa að panta sitt af hverju hjá hverjum götusala og láta bragðgóðan fjölbreytileikann leika um bragðlaukana sem aldrei fyrr. Það vill svo heppilega til að Sukumvit 38 er bara beint fyrir neðan Thong Lor BTS ofanjarðarlestarstöðina. Það er því alls ekki erfitt að komast þangað.

5. Khao man Gai á Sukumvit 38

Hrísgrjónaréttur með kjúkling, borinn fram með súpu sem framleidd er úr soðinu og ótrúlega ljúffengri sósu. Þetta er einfaldur réttur en einstaklega góður. Áferð hrísgrjónanna er frekar fitug en hún passar svo vel við kjúklinginn sem er annaðhvort soðinn eða djúpsteiktur. Maður getur fengið sér hvorutveggja. Súpan sem kemur með er einstaklega bragðsterk og mér persónulega finnst gott að setja nokkrar skeiðar af henni yfir réttinn ásamt sterku sósunni sem kemur með. Það er hægt að fá þennan rétt víða en ég lofa frábærum gæðum á Sukumvit 38, þessi ljúffenga máltíð kostar um 200 kr íslenskar, eða 50 baht.

4. Tomyum Yentafo Núðlusúpa í Huai Kwang

Beint á móti bókasafninu sem er við hliðin á Chan Hun Bumpen skólanum. Ég hef smakkað ansi margar núðlusúpur á ævi minni en ég held að ekkert komist í líkingu við þessa risastóru núðluskál með blönduðum hráefnum, svínakjötshakkplata, smokkfiskur, risarækjur, grænmeti, það er ekki verið að spara hráefnin í þessa súpu. Dásemdin kostar 50 baht eða rúmlega 200 kr íslenskar og er vel ferðarinnar virði ef þú vilt smakka bestu núðlusúpu lífs þíns. Verslunin opnar í kringum fimm leytið eftirmiðdaginn og selst þangað til birgðir endast. Vertu fljót/ur því annars getur eitthvað klárast! Það er ALLTAF brjálað að gera enda verðlaunuð súpa.

3. Pad Thai, Hoi Tod og Tom Yum Goong á Sukumvit Soi 38

Hver vill ekki bragða á margverðlaunu Pad Thai fyrir slikk? Pad Thai gæðin á flestum veitingastöðum heima standast engan veginn mínar væntingar en þetta Pad Thai er algjör snilld. Smakkast einstaklega vel með sjóðandi heitri og bragðmikilli Tom Yum Goong súpu sem maður sötrar á milli pad thai bita. Svo er eitthvað sem langfæstir hafa prófað, en það er Hoi Tod, djúpsteiktur kræklingur borinn fram með ljúffengri chillisósu. Ef þú ert ennþá svöng/svangur eftir þessa veislu þá er tilvalið að fá sér Mango Sticky Rice í eftirrétt við hliðin á, svona ef þú hefur tíma, sögurnar segja að þetta sé besta Mango Sticky Rice in town! Þessi veisla ætti ekki að kosta meira en 500 baht samtals fyrir 2-3 sem eru að borða saman, c.a. 2000 kr íslenskar.

2. Sítrónueldaður Pla Kraphong með stökkum grísahnakka og stökklauksteiktum kjúkling á Yaowarat Restaurant í Onnut

Í göngufæri frá Onnut BTS lestarstoppinu, í sjálfri Onnut götunni rétt við hliðin á Big C Extra er veitingastaður sem aðeins er opinn á kvöldin og fram á miðja nótt. Þetta er voðalega ómerkilegur staður í sjálfu sér fyrir utan hvað maturinn þarna er ÓTRÚLEGA góður. Þau eru þarna með nokkur ræktunarfiskabúr, það er því nokkuð ljóst að sjávarréttirnir eru með því ferskasta sem finnst. Ég bjó þarna í grenndinni og borðaði þarna mjög oft, af ástæðu. Uppáhaldsrétturinn minn var án er Pla Krapong eða Sjávar Bassi “Sea Bass” sem er hvítur fiskur gufusoðinn með lime og hvítlauk. Borinn fram á sjóðandi platta með kolum fyrir neðan og fiskurinn sést varla fyrir maríneringunni. Súpan fyrir neðan fiskinn er síðan svo fáránlega bragðgóð að maður getur ekkert að því gert þó maður gleymi sér í sötrinu. Djúpsteiktur brakandi kjúklingur er síðan virkilega vel metinn með þessari dásemd ásamt stökkum grísahnakka. Borðist með hrísgrjónum til hliðar! Þessi máltíð kostar c.a. 500 baht fyrir 2-3 saman.

1. ISAN Larb eða Larb Tod með Somtam Thai, klístruðum grjónum og grilluðum kjúkling

Ég er ekki með neina sérstaka staðsetningu fyrir þetta kombo hér. Ég hef borðað þetta á svo mörgum stöðum þar sem ég hef verið slefandi sátt eða slefandi vonsvikin. Það er hægt að fá þetta combo mjög víða. Þetta er þekktasta Isan kombóið en Isan matur er af norðausturlenskri matargerð og er þekkt fyrir að leika við bragðlaukana. Larb er svínahakkssalat með allskonar kryddjurtum, eins og kóríander, vorlauk og chilli, Larb Tod er þessi réttur í djúpsteikri bolluútgáfu, algjör unaður. Somtam Thai er papaya salat, eitt helsta signature salati Taílands fyrr og síðar. Til að toppa þessa veislu þá mæli ég með grilluðum eða djúpsteiktum kjúkling og til hliðar skal hafa við hönd sticky rice, eða klístruð hrísgrjón. Skolist niður með brakandi fersku pepsi eða ísköldum bjór. Þetta kombó getur kostað þig á bilinu 250-500 baht eftir veitingastöðum eða götusölum fyri 2-4 saman. Ég get mælt með einum spes stað þar sem ég get lofað geggjuðum gæðum á veitingastað við Ekkamai BTS lestarstöðina, hann er við hliðin á Major Cineplex bíóinu og er skreyttur ljósaseríum. Ætti ekki að fara framhjá neinum.

Psst… Smá hint: Flestir réttirnir hér að ofan geta verið sterkir ef maður biður ekki um miskunn fyrir chillinu. Það er öruggara að segja “No Spicy (ekkert sterkt)” eða “Spicy nid noi (bara örlítið sterkt)” ef þú ert með viðkvæma bragðlauka!

Svo ein rosa krúttleg af mér í lokin…

 

About The Author

Elín Kristjánsdóttir
Ritstjóri, vefstjóri og færsluhöfundur

Án Elínar væri Gekkó ekki til. Hún er stofnandi og einn af eigendum Gekkó, og nýtur hvert tækifæri sem gefst til að pakka í tösku og fara í ferðalag eða einhverskonar ævintýri. Einnig er hún líka mikið úthafs og náttúrubarn og hefur gaman að öllu sem viðkemur vatnasporti og fjallamennsku. Elín spáir mikið í mannlega þættinum og tilgangi lífsins og elskar að vinna með fólki. Hún hefur m.a. lært að kenna þerapíuna Lærðu að elska þig eftir Guðbjörgu Ósk Friðriksdóttur og er því viðurkenndur kennari í Þerapíunni. Elín hjálpar fólki að öðlast sjálfstraust til að lifa lífinu á eigin forsendum.

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.