Það er búið að vera draumur lengi að fara til Kúbu og í haust lét ég loksins verða að því.
Við Kaali skráðum okkur í spænskuskóla og reyndum eins og við gátum að læra spænsku og að dansa salsa en mikilvægast af öllu samt að kynnast nýrri  menningu og kynnast frábæru fólki.

Ég fór út með því hugarfari að þetta væri sennilega í fyrsta og eina skiptið sem ég myndi koma til Kúbu en eftir að hafa verið þar í þrjár vikur get ég ekki annað en látið mig hlakka til að koma aftur og helst fljótlega þar sem ég féll algjörlega fyrir landi og þjóð.

Fyrstu helgina okkar á Kúbu reið fellibylurinn Irma yfir landið með miklum afleiðingum. Sem betur fer fór betur en á horfðist en plönin okkar breyttust þó vegna eyðilegginga í landinu. Það var lítið sem við gátum gert í því og í staðin græddum við bara meiri tíma í Havana og því ætla ég að fara yfir það sem okkur fanst standa uppúr í þeirri frábæru borg.

Farðu á rúntinn

Bíltúr í klassískum amerískum bíl er klárlega upplifun sem enginn sem heimsækir Kúbu má láta fram hjá sér fara. Á Central Park torginu í Old Habana bíða bílstjórar í röðum við bílana sína sem eru hver öðrum flottari eftir að geta kynnt borgina fyrir ferðamönnum. Þeir munu reyna að selja þér ferð fyrir miklu meira en raunhæft er svo hafðu það í huga og reyndu að prútta. Borgaðu ekki meira en 30-40 CUC fyrir klukkutíma bíltúr. Við vorum 5 saman í bíl og borguðum 30 CUC fyrir klukkutímann. Við bættum svo við detour á ströndina en það tekur um 45 mínútur að keyra þangað. Bílstjórarnir biðu eftir okkur og skutluðu okkur svo til baka, en þessir rúmu þrír klukkutímar aukalega kostuðu okkur auka 30CUC.
Fyrir þennan langa bíltúr borguðum við um 1200kr (isk) á mann!

Gangtu eftir Malacón

Steinveggurinn sem skilur að háan öldugang og landið kalla heimamennirnir Malecón.
Að labba meðfram (eða á) steinveggnum er engu líkt og alveg eitthvað sem ætti að vera partur af dagskránni hjá öllum. Þaðan er frábært útsýni yfir til Casablanca, Hotel Nacional og fleiri þekkta staði og byggingar. Margir kannast svo eflaust við Viengsay Valdés styttuna sem stendur þar í allri sinni dýrð. Malacón iðar af lífi allan daginn og er hvergi betri staður til að kynnast nýjum vinum, þá sérstaklega á kvöldin á meðan sólin er að setjast og gerist það varla rómantískara en að taka með nesti og romm og hlusta á heimamenn spila og dansa salsa og horfa á sólsetrið en er það frekar vinsælt meðal heimamanna og gesta. Það er svo hægt að taka lest á hjólum heim fyrir 1CUC. Hún stoppar þegar maður vinkar henni og svo þarf bara að kalla á bílstjórann til að fara út.

Hverfið við Malecón er líka mjög áhugavert að skoða. Sú sýn gefur manni ágætis hugmynd um hversu gott við höfum það.

Callejón de Hamel

Er lítil gata á milli  Aramburu og Hospital í Centro Habana. Salvador González hefur yfir nokkra ára skeið dundað sér við að skreyta götuna í afro-cuban stíl og er þar að finna flottar minjagripabúðir, list sem tengist trúnni þeirra og svala bari að sjálfsögðu.

Dansaðu Salsa í Casa de la Música í Miramar

Casa de la Musica er staðurinn sem lókallinn dansar á og er alveg geggjað að fara þangað eina kvöldstund, hlusta á lifandi tónlist, fá sér mojito,  horfa á alvöru salsa og að sjálfsögðu taka þátt. Flaska af rommi er frekar ódýr þar eins og á flestum öðrum stöðum og er að sjá að minnsta kosti eina á hverju borði! Staðurinn er aðeins fyrir utan Old Habana og því þarf að taka leigubíl þangað.
*Það eru tvö Casa de la musica, þetta í Miramar er mun vinsælla meðal heimamanna.  

Fáðu þér kokteil og tapas á 361 Bar

361 Bar á Lambarilla Street á milli Aguacate st. & Villegas st.
Tapas Y Cervezas

Kúbverskur matur kom okkur svo sannarlega á óvart en við höfðum svosem ekki búist við miklu. Maturinn á 361 bar stóð samt uppúr og borðuðum við þar oftar en nokkrusinnum. Réttirnir eru í tapasstíl og kokteilarnir oftar en ekki stærri en réttirnir sjálfir. Staðurinn er örlítið dýrari en á mörgum öðrum stöðum en þegar ég tala um “örlítið dýrari” er ég að tala um rétti í kring um 5CUC (500kr) og kokteila og bjór á 3CUC (300kr). Starfsfólkið tók alltaf á móti okkur með bros á vör og kvaddi okkur meira að segja með knúsi síðasta kvöldið okkar. Þau buðu alltaf uppá kaldasta bjórinn og smá smakk af matseðlinum, hvort sem við komum bara fyrir drykki eða líka í mat.
Mæli með að smakka Daquiri af einhverri sort (vatnsmelónu!!) og Pina Colada.

Lærðu að dansa salsa í Casa Del Son

Fáðu útrás og lærðu að dansa eins og alvöru Kúbani í Casa Del Son. Það tók mig ekki nema eitt skipti að ná taktinum og skemmti ég mér konunglega! Hver nemandi fær sinn egin kennara og dansfélaga svo þetta er ekkert í líkingu við danstímana í grunnskóla. Einn tími kostar um 18CUC en afsláttur er gefinn á hverjum tíunda tíma. Svo er skólinn líka bara svo svalur að innan að það er eginlega nauðsynlegt að fara þangað þó það væri ekki nema bara rétt til að reka nefið inn.

*Þessi skóli er sá sem nemendur í Spanish, Culture and Salsa fara í úr Jakera. 

Fáðu þér að borða á El Dandy

El Dandy er einn af stöðunum sem við heimsóttum reglulega. Matseðillinn er mjög ódýr og er eins og einhverkonar plus size tapas en einn réttur + kokteill dugði mér. Ég held að kúbverkt tabas sé aðeins öðruvísi en það tabas sem við þekkjum frá evrópu. Ég mæli með að smakka taccos.

Drekktu expresso á El Café

Ég var svo afskaplega glöð að sjá alvöru kaffivél. Ekki það að ég hafi ekki fengið gott kaffi allsstaðar annarsstaðar, þvert á móti. Kúbverskt kaffi er það besta sem ég hef smakkað. Á El Café er hægt að fá gulrótadrykki, hipstera kaffidrykki og súrdeigsbrauð en eigendurnir eru greinilega undir einhverskonar verstrænum áhrifum. En okkur þótti ágætt að kíkja þangað af og til og fá okkur eitthvað kunnuglegt. Hverfið í kring um El Café er líka dálítið hipsteralegt/vestrænt en með Kúbverskum blæ svo þar er gaman að rölta eftir einn góðan expresso.

Sjáðu á útsýnið frá Ambus Mundos Hotel

Kokteilarnir fara seint á bestu-kokteila-listann en útsýnið yfir Old Habana og Casablanca er eitthvað sem bætir það upp milljón sinnum.
Pro tip: Ef þeir segjast ekki eiga bjór eða eitthvað annað en bara kokteila er ágætt að svipast um í kringum sig og reyna að spotta bjór á borði  einhvert þar sem þeir reyna að selja ferðamönnum dýrari drykkina. 

Skoðaðu Casablanca

Það er hægt að keyra yfir til Casablanca í gegnum neðansjávar göng en ég mæli klárlega með því að taka ferjuna. Frá höfninni er um klukkutíma gangur að Castillo de San Carlos de la Cabana kastalanum upp brekku, en á sirka miðri leið er La Cabana de Che Guevara, hús Che Guevara og 70m há Jesús stytta sem er byggð eftir fyrirmynd kúberja sem er áhugavert að sjá. Því miður var lokað í safninu þar sem við fórum aðeins nokkrum dögum eftir fellibylinn en fæ vonandi einhverntímann að kíkja í heimsókn til Che. Á milli heimilis Che og kastalans er síðan stríðsmynjasafn með, skriðdreka, flugvélar og aðrar mynjar úr kalda stríðinu. Á hverju kvöldi klukkan 21:00 er svo skotið úr fallbyssu við kastalann. Þrátt fyrir að þetta sé gert á hverju kvöldi er það ákveðin athöfn og mjög áhugavert að upplifa. Í mynjagripabúðinni við kstalann er svo stærsti vindill í heimi en hann er 81m! Ég mæli með að taka sér góðan tíma í að skoða Casablanca og enda á því að horfa á sólsetrið við kastalann en það er engu líkt!

Far fyrir einn með ferjunni kostar 1 CUP (ekki CUC) sem eru 5senta CUC. Fyrst ætluðu starfsmennirnir í ferjunni að rukka okkur um 1CUC en sem betur fer vissum við betur  og biðum eftir næstu ferju og leifðum þeim ekki að rukka okkur 95% meira en uppsett verð. 

Skoðaðu markaðinn við höfnina

Á leiðinni í ferjuna til Casablanca er risa stór markaður sem selur bæði föt, málverk og minjagripi. Ég mæli klárlega með að gera sér eina ferð þangað og klára minjagripa kaupin þar sem verðin þar eru um heimingi ódýrari heldur en í Old Habana.

Pro tip: Stelstu í sund á hótel Parqe Central

Pro tip: Labbaðu sjálfsöryggið upp málað inn á hótelið og beint inn í lyftuna. Ekki taka með þér handklæði því þau eru í boði við sundlaugina. Sundlaugavörðurinn spyr um herbergisnúmer svo vertu viss um að allir í hópnum gefi upp sama númer.

 

This slideshow requires JavaScript.

 

Kúbanar eru svo æðislegt fólk og það má alls ekki gleymast. Það var oft sem við stóðum algjörlega lost og vissum ekkert í okkar haus og oftar en ekki var okkur bjargað af heimamanni sem var allur af vilja gerður að hjálpa okkur að finna staðinn sem við leituðum af. Oft settumst við niður á bari með þeim og áttum gott spjall. Ekki í neinu tilviki vorum við rukkuð fyrir “þjónustu” sem við báðum ekki um og var þetta því alltaf einskær forvitni af þeirra hálfu og ótrúlega skemmtilegt fyrir okkur. Við eignuðumst marga góða vini.

Eins og flestir vita er internetið af mjög skornum skammti þarna úti og fannst okkur það því kjörið að leyfa okkur aðeins að gleyma okkur og vera internetlaus í smá stund. Það var kærkomið frí 🙂

Íris

instagram

 

About The Author

Íris Ösp
Færsluhöfundur

Íris fer öðruvísi leiðir í lífinu og við höfum ótrúlega gaman af því! Ekki nóg með það að vera listamaður heldur bjó þessi reynslubolti á Grænlandi í um sex ár og lærði þar myndlist sem og ýmislegt annað. Hún lærði fatahönnun í lýðháskóla í Danmörku og stundaði ferðatengt starfsnám í Lapplandi. Íris hefur ferðast um víðann völl og þrátt fyrir að vera kuldaskræfa er hún algjör expert í ferðalögum um Grænland og kaldar slóðir.

Related Posts

One Response

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.