Google search; Zanzibar – Mynda niðurstöður: Fallegasta hvíta strönd í heimi, grænn sjór og blár himinn.

Í köldum og dimmum febrúar mánuði tók ég ákvörðun um að fara í stutt ferðalag. Ég fékk þessa yfirþyrmandi tilfinningu að ég væri föst á þessari eyju, tilfinning sem margir Íslendingar kannast við, sérstaklega í skammdeginu. Ég var með stað í huga, staður sem var á bucketlistanum mínum, ég fór inn á dohop.is og innan tuttugu mínútna var ég komin með flug, fram og til baka. Ég notfærði mér tengslanet mitt og fékk gistingu á hosteli sem rekið er af gömlum vin sem ég kynntist fyrir mörgum árum á öðru ferðalagi. Hostelið, Drifters backpakers er í litlum strandbæ sem heitir Paje og er í Zanzibar. Hostelið er vel staðsett í um 30 sekúndna göngufæri frá ströndinni.

 

Væntingar uppfylltar

Ég hafði miklar væntingar, kannski vegna google leitar minnar en einnig vegna lýsinga félaga míns, hosteleigandans sem þekkir Zanzibar vel. Mig langaði í fullkomið afslappelsi á hinni fullkomnu strönd. Væntingar mínar voru svo sannarlega uppfylltar. Hvítur mjúkur sandur, grænn tær sjór og fallegur blár himinn, sól og hiti. Í mars byrjar rigningartímabil og með því fer ferðamönnum fækkandi, það er lítið um ferðamenn fram í júní. Ég fór gagngert á þessum tíma því ég vissi að það yrði minna um ferðamenn.

Að ferðast á þessu tímabili hefur í för með sér kosti og galla. Margir veitingastaðir og hótel á svæðinu loka og rigningin er engin venjuleg rigning heldur hitabeltis skúr. Vegir eiga það til að loka vegna vatnsþunga. Það rignir þó ekki allan tíman og yfirleitt ekki allan daginn. Kosturinn við þessa tímasetningu er sá að það eru ekki margir á ströndinni, verðin lækka, þrátt fyrir að vera ódýr fyrir (dæmi: Fiskur dagsins á 800 krónur, bjór á 200 krónur). Veðrið er betra, 25-30°og svo er bara eitthvað kósy við hitabeltis úrhelli.

 

            

             

Stone town

Það er mjög margt hægt að gera í Zanzibar, dýralíf og plöntulíf er mikið á eyjunni og margir garðar sem bjóða upp á að skoða það. Höfuðborgina Stone town er vert að heimsækja, þar er merkileg saga, fallegar byggingar og hús með fallegum hurðum og þröngar götur. Ég mæli með leiðsögumanni frá Stone town eða einhvern sem þekkir vel til þar. Það er mjög auðvelt að villast í gamla hverfinu innan um margar þröngar götur sem margar líta nánast alveg eins út.

Borgin er ekki stór og það tekur um 2-3 klukkutíma að skoða hana og fræðast um sögu hennar. Borgin er þekkt fyrir að hafa verið mikilvæg í viðskiptum á 12 og 15 öld við Indland og Asíu; þrælar, gull, fílabein og timbur voru helsta útflutningsvaran á þessum tíma. Byggingarlist Zanzibar var undir áhrifum Indlands og Asíu og sést það vel enn þann dag í dag.

Frá Stone town er hægt að taka ferju til meginlandsins, það tekur um tvo klukkutíma að fara með ferunni til Dar es salam.

                                                       

 

Köfunarparadís

Köfun er vinsæl í Zanzibar þar sem kóralrif ráða ríkjum, sæhestar finnast víða og hægt er að sjá fiska í öllum litum og af ýmsum tegundum. Ég fór í mína fyrstu köfun (annað bucketlista check) og það var magnað, nýr heimur opnaðist. Þrátt fyrir að vera logandi hrædd við að vita ekki hvað er fyrir neðan mig og ímyndunararveik í meira lagi þar sem ég sá fyrir mér hákarla og hin ýmsu sjávarskrímsli náði ég að slaka á og taka inn alla þá dýrð sem fyrir augum bar. Endalaust af ótrúlega mismunandi fiskum, röndóttar slöngur, kóralrif, sæhestar og plöntur í öllum litum. Ég fór á Padi köfunarnámskeið á Paje ströndinni. 

Brimbrettabrun er vinsælt við Paje ströndina og þá sérstaklega sjódrekaflug (e. kite surfing) þar sem brimbretti eru dregin af flugdreka og vindurinn notaður til þess að grípa öldurnar.

 

 

 

 

 

 

 

The Rock og Mr. Kahawa

Veitingahúsið The Rock restaurant er nokkuð frægt í Zanzibar, það er staðsett á Pingwe stöndinni nálægt Michamwi ströndinni (Michamwi er á kortinu en ekki Pingwe). Veitingahúsið er góður staður til þess að slaka á og fá sér hressingu, það sem gerir staðinn ólíkan öðrum er að hann er staðsettur í sjónum, ef það er fjara þá er ekkert mál að komast að honum en fæturnir munu blotna þegar það er flóð. Ég fór þangað þegar það var fjara svo ég náði því miður ekki Kodak mómenti sem verður þegar það er flóð. Ég mæli með því að skoða myndir af staðnum á netinu, hann er magnaður.

Besta kaffið fékk ég á Paje ströndinni á stað sem heitir Mr. Kahawa. Þetta er vinsæll staður á meðal ferðamanna og þarna er skemmtilegt andrúmsloft, frábært útsýni og kisur að kúra eða að reyna stela matnum þínum.

 

Vert að hafa í huga!

Ferðamenn þurfa að hafa Yellow fever bólusetningu þegar þeir koma til Zanzibar, það er þó ekki tekið strangt á því ef flogið er beint inn frá Evrópu eða Ameríku.

Ég mæli með að muna eftir moskító fælunni, ég gleymdi minni og þrátt fyrir moskító net náðu þær mér og ég kom vel götótt tilbaka!

Ég ferðaðist ein um Zanzibar og var mjög örugg allan tíman, heimamenn voru mjög hjálpsamir og þeir sem ég talaði við voru allir af vilja gerðir til þess að aðstoða mig og gefa mér góð ráð. Það eru mörg hostel í boði á eyjunni, en framboð er þó mismunandi eftir strandbæjunum. Ég mæli hiklaust með eyjunni fyrir þá sem vilja kynnast annari menningu, borða góðan ferskan fisk, kynnast nýju fólki og upplifa hina fullkomnu strönd með öllu því sem hún hefur upp á að bjóða.

 

Takk fyrir mig Zanzibar, ég kem aftur!

About The Author

Færsluhöfundur

Mannfræðingur sem elskar ferðalög, ferðasögur og ferðaskrif.

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.