Síðustu árin hef ég gefið mínum nánustu upplifanir frekar en veraldlegar gjafir, í afmælis- og jólagjafir og hefur það fallið vel í kramið hjá flestum, sérstaklega litla bróðir mínum sem er 10 ára. Samvera er eitthvað sem við systkinin metum mikils, sérstaklega þar sem við höfum ekki búið saman í langan tíma og ég er mikið á ferðalögum svo ég vill nýta þann tíma sem ég hef með honum á Íslandi vel.

Í 10 ára afmælisgjöf fékk hann gjafabréf í reiðtúr og fórum við saman í reiðtúr í Hveragerði og sund eftir á. Annað slagið hef ég svo verið að bjóða honum í óvissuferðir og höfum við verið að fara í til dæmis út í Viðey, á skauta á Ingólfssvelli fyrir jólin og dagsferðir í til dæmis Seljavallalaug og Reykjafjörð.

Á laugardaginn tók hann svo út jólagjöfina sína og í þetta skipti var það jöklaferð með Íslenskum fjallaleiðsögumönnum. En ég hef nokkrum sinnum farið með þeim uppá jökla og í aðrar ferðir og finnst þau alltaf jafn fagleg og skemmtileg.

Við keyrðum sjálf að jöklinum og hittum leiðsögumannin á bílastæðinu við Sólheimajökul og þar fengum við allan auka búnað eins og brodda, exi og klifurbelti til öryggis og stutta kennslu á búnaðinn og um hvernig skal gengið á jöklinum.

Lestu líka: Falleg dagsferð frá Reykjavík: Snæfellsnes

Gangan tók um 2 tíma sirka. Fyrsti spölurinn að jöklinum er án alls útbúnaðs, enda bara á möl, en leiðsögumaðurinn útskýrði fyrir hópnum okkar hvernig jökullinn hefur bráðnað síðustu árin og hversu hratt hann er að bráðna. Ég sjálf sá mikinn mun á milli ára, en rúmt ár er síðan ég kom síðast á Sólheimajökul. Síðan er stoppað við jökulræturnar þar sem mannbroddarnir eru settir undir skóna og leiðsögumaðurinn útskýrir frekar hvernig er best að labba með broddana undir og hvernig ísexin virkar.

 

Hugi hefur mjög mikinn áhuga á ýmsu sem tengist hlýnun jarðar, jarðfræði, steinum og náttúrunni almennt svo honum fannst þetta ótrúelga skemmtilegt. Hann var spenntastur fyrir því að sjá bláa litinn í jöklinum og fannst áhugavert að sjá hvernig jökullinn breytti um lit þegar það komst loft í ísinn.

Huga datt svo í hug ágætis tenging jökulsins við líkamann okkar þar sem jökullinn er blár áður en það kemst loft í hann, alveg eins og blóðið í mannslíkamanum. Þegar jökullinn bráðnar breytist blái liturinn í hvítan eða glæran og missir jökullinn þannig “blóð”. Þessvegna finnst honum jöklar vera mikilvægir fyrir náttúruna því án þeirra er jörðin eins og mannlíkaminn án blóðs.
En þetta fannst mér frábær nálgun á hlýnun jarðar, frá 10 ára gömlum snilla.

Hann kom svo reynslunni ríkari niður af jöklinum og spenntur að segja öllum frá. Á leiðinni niður týndum við svo rusl því okkur fannst sorglegt að sjá alla sígarettustubbana sem lágu á víðavangi.

Lestu líka: Skelltu þér til Grímseyjar!

Eftir smá nestispásu og orkusöfnun við jökulinn keyrðum við svo að sólheimasandi og fórum í smá auka “óvissuferð” að flugvélaflakinu. Þar gerðum við smá jóga, lékum okkur aðeins og tókum nokkrar myndir, en þrátt fyrir að hafa verið þar á milli kl 16 og 17 vorum við nánast ein við vélina í frábæru veðri.

Þrátt fyrir að jólagjöfin sjálf hafi verið ferð uppá jökulinn fannst Huga flugvélaflakið ekkert síðri staður sem sýndi okkur að svona gjafir þurfa heldur ekki að kosta meira en bara bensín og nesti þar sem að hann naut sín alveg jafn vel við að gera það sem kostaði ekkert (auðvitað!).

Planið var svo að fara í einhverja skemmtilega sundlaug eða náttúrulaug á leiðinni heim en annað afturdekkið sprakk á leiðinni heim og Hugi steinsofnaði í aftur sætinu, enda búinn að labba rúma 17 km svo við létum það afrek duga og fórum bara heim að hafa það notalegt.

Lestu líka: Náttúrulaugar á Íslandi

Þessi dagur var yndislegur og frábær í alla staði og fannst Huga þetta vera “besta jólagjöf í heimi”.

Við þökkum Íslenskum fjallaleiðsögumönnum kærlega fyrir okkur og við hlökkum til að fara í fleiri ferðir með þeim. En við gerð þessarar færslu rak ég augun í 25% (!!!) afslátt á ferðum hjá þeim út Maí svo mig langar að hvetja alla til að skoða úrvalið og skella sér með þeim í einhverskonar ferð með leiðsögn og læra meira um landið okkar og þá sérstaklega jöklana. Þau fá öll mín meðmæli.

*Þessi færsla er ekki unnin neinu auglýsingaskini fyrir Íslenska fjallaleiðsögumenn

 

Íris
instagram 

About The Author

Íris Ösp
Færsluhöfundur

Íris fer öðruvísi leiðir í lífinu og við höfum ótrúlega gaman af því! Ekki nóg með það að vera listamaður heldur bjó þessi reynslubolti á Grænlandi í um sex ár og lærði þar myndlist sem og ýmislegt annað. Hún lærði fatahönnun í lýðháskóla í Danmörku og stundaði ferðatengt starfsnám í Lapplandi. Íris hefur ferðast um víðann völl og þrátt fyrir að vera kuldaskræfa er hún algjör expert í ferðalögum um Grænland og kaldar slóðir.

Related Posts

One Response

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.