Sigga Kolla bjó í Nýja Sjálandi í 9 mánuði þegar hún var 18 ára. Síðan þá hefur hún stefnt að flytja aftur því hún gjörsamlega kolféll fyrir þessu landi. Líkt og í Ástralíu er menningin mjög afslöppuð og eru „Kiwis“ mjög hrifnir af útiveru og afslöppun.  Sigga Kolla bjó í Auckland, sem er stærsta borgin í Nýja Sjálandi. Auckland-búar fá stundum smá skít frá samlöndum sínum og er viðurnefnið „JAFA“ stundum notað, en það stendur fyrir Just Another F*cking Aucklander“. Persónulega segist hún elska Auckland, hvort það  segi meira um hana eða Auckland það veit hún ekki.

Borgin

Auckland er stór borg og mjög dreifð, þú getur keyrt í 40-60 mín og ennþá verið í Auckland. Ég bjó í miðbænum og því mun ég helst tala um mína eftirlætis staði í mínu hverfi sem og í nálægð við Auckland. Hæglega er hægt að ganga allt í miðbænum og er það í raun skemmtilegasta leiðin til að sjá borgina vegna þess að hægt er að finna litlar götur hér og þar með allskyns verslunum og þjónustu sem er líklegt að maður myndi missa af ef keyrt væri um. Auckland er þó byggt á eldfjöllum svo það er ekki hægt að ganga um borgina án þess að ganga eins og eina til sautján brekkur! Þannig búið ykkur undir buns of steel eftir  nokkra daga.

Rangitoto

er í raun eldfjall sem rýs upp úr sjónum, sem myndaðist fyrir um 400-500 árum. Á máli innfæddra þýðir Rangitoto “blóðugur himinn”, en fullt nafn eyjunnar er “Nga Rangi-i-totongia-a Tama-te-kapua” (reyndu að segja það 3 sinnum hratt!). Á Rangitoto er takmörkuð þjónusta en það tekur sirka 1-2 tíma að ganga upp á topp eyjunnar og þá bíður hún upp á ótrúlegt útsýni yfir Auckland. Fallegar strendur eru á eyjunni og tilvalið að taka með nesti og eyða deginum á þessari spennandi eyju. Ég mæli samt ekki með að taka glórulausa túristann á þetta líkt og ég gerði og fara í almennilegum gönguskóm!
Kv. Gellan sem fór í Flip Flops og dó næstum því.

Waiheke

er aðeins stærri eyja og býður hún upp á allslags þjónustu. Mjög vinsælt er að leigja reiðhjól og hjóla um eyjuna. Waiheke er einnig þekkt fyrir fallegar vínekrur og bjóða mörg fyrirtæki upp á ferðir um allar vínekrurnar og færðu að smakka á hverri ekru fyrir sig, svona eins og fancy pub crawl, nema þú skilur hælana eftir heima. Svo er einnig markaður á sunnudögum þar sem hægt er að kaupa allskonar föndur og minjagripi sem heimamenn búa til sjálfir og sömuleiðis allskonar mat frá ótal stöðum í heiminum. Þegar ég fór til Auckland í heimsókn árið 2012 ákvað ég að jafna mig á flugþreytunni á Waiheke. Ó elsku Waiheke, hvað þú bjargaðir mér! Ég leigði mér „Bach“ sem er yfirleitt mjög basic bústaður. Þetta var pínulítill kofi, inn í litlum skógi en samt í göngufæri við aðalgötur og þjónustu. Á nóttinni var hægt að horfa út um lítinn þakglugga og horfa á gló-orma í trjánum fyrir utan.  Ef ég ætlaði að skrifa einhverja ferðasögu um helgina mína á Waiheke væri það eflaust ein leiðinlegasta ferðasaga sem heyrst hefur, því eina sem ég gerði var að sitja á ströndinni, borða osta og drekka vín. Akkúrat sem ég þurfti eftir 30+ tíma ferðalag!

Sky Tower

Helsta kennileiti borgarinnar Er the Sky Tower. Þar er flottur veitingastaður og Casino.   Turninn býður upp á frábært útsýni yfir borgina og hafa þeir brugðið á það að hafa gólfið á útsýnispallinum úr gleri svo manni finnst maður standa í lausi lofti þar sem maður horfir niður. Hægt er að fara í teygjustökk fram af turninum en ef það að hoppa niður rúmlega 200 metra heillar ekki þá er hægt að ganga hringinn á þar til gerðum palli í beisli og sjá þar borgina Auckland í öllu sínu valdi. Aðvörun; þú munt fá æðislegan appelsínugulan galla fyrir smá “High Fashion” element!

Djammið

Ef planið er að skella sér á djammið þá eru nokkrir valkostir. Á Queen street og the Viaduct má finna mainstream klúbba sem spila þessa helstu topp 40 tónlist. Mjög kósý á sumar kvöldum að fá sér kannski að borða við höfnina og skella sér svo út á lífið. Ponsonby og K-road eru svo annar valkostur en þar finnurðu meira „eclectic“ staði; djass, vínkjallara, alternative, gay og bara nefndu það!

The Domain

Er stór almenningsgarður í hjarta borgarinnar, þar er æðislegt að fá sér sæti þegar það er gott veður og hafa smá lautarferð. Í The Domain er svo Auckland museum sem er æðislegt safn sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Ég veit ekki hvort ég eigi að viðurkenna þetta en ég bjó í kannski sjö mínútna göngufjarlægð frá safninu en það tók mig samt átta mánuði að fara að skoða það! Vildi að ég hefði farið mun fyrr því þetta er stórt og skemmtilegt safn með ýmsan fróðleik um Nýja Sjáland og náttúruna og menninguna sem má finna þar.Í garðinum er einnig grasagarður sem nefnist Winter Gardens.

 

About The Author

Gestabloggarar eru ýmsir aðilar sem hafa frumsent okkur greinarnar sínar eða leyft okkur að endurbirta greinar eftir sig af öðrum miðlum. Vilt þú birta færslu á Gekkó? Ýttu á umslagið í horninu eða sendu okkur póst á ritstjorn@gekko.is og við kíkjum á þetta saman!

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.