Í apríl fór ég til Amsterdam en þar lék lífið svo sannarlega við okkur og fengum við rúmlega 20°C alla helgina og neyddumst til þess að kaupa okkur stuttbuxur (æ,æ). Ég gerði enganveginn ráð fyrir svona dásemdarveðri og þótti það nú lítið mál að splæsa í stullur á Kalverstraat.

Ég hef áður komið til Amsterdam en mér fannst frábært að heimsækja borgina aftur. Ætli veðrið hafi ekki átt stóran hluta í því en ég varð eiginlega hrifnari af henni í seinna skiptið.

Eins og færslurnar mínar eru vanalega uppsettar þá ætla ég að segja ykkur hvað ég mæli með að gera og hverju má sleppa.

Happy happy joy joy

Við fórum út að borða með góðu fólki á kínverska staðinn Happy happy joy joy. Ég náði að vísu engum myndum af matnum en staðurinn er frábær! Maturinn var mjög góður og andrúmsloftið afslappað og þægilegt. Við pöntuðum okkur heilan helling af réttum til þess að deila og borguðum að ég held, 15.000 krónur fyrir fjóra. Sem er náttúrulega bara grín verð miðað við hér á landi.

Bátsferð um síkin

Við höfðum farið áður í bátsferð en okkur fannst tilvalið að fara aftur því það var svo gott veður. Við lentum á áhugaverðum farastjóra sem talaði þokkalega bjagaða ensku þannig að maður þurfti að hafa sig alla fram við að skilja hann. Hann fór svo að segja okkur frá hjólamenningu í Amsterdam og hvernig hjólabjöllureglunum væri háttað (sumsé: eitt ding = hæ, tvö ding = ekki hreyfa þig ég hjóla framhjá, þrjú ding = drullaðu þér í burtu þú ert fyrir).

Okkur fannst þetta náttúrulega bráðsniðugt og fórum með þessa svaka vitneskju til frænku Stefáns og mannsins hennar sem hafa búið í Holland í fjölda mörg ár. Þau höfðu aldrei heyrt af þessum “reglum”. Því var óhætt að segja að fararstjórinn hafi bara fundið þægilega sögu til að segja ferðamönnum.  Ææææ þið sem þekkið mig vitið hvað svona fer í taugarnar á mér. EKKI SEGJA SÖGUNA EF HÚN ER EKKI SÖNN.

Hjólaferð um Amsterdam

Ég hjólaði í fyrsta skipti í borginni og vá hvað það er þægilegur ferðamáti! Við gátum fengið hjól á leigu á hótelinu okkar fyrir 20€ og voru hjólin mjög góð. Við sáum svolítið eftir því að hafa ekki leigt okkur hjólin fyrr því þetta var svo ótrúlega hentugur ferðamáti og maður var enga stund að hjóla á milli staða.

Við áttum frábæra helgi í Hollandi. Ég mæli líka með Kalverstraat verslunargötunni, heimsækja rauða hverfið og skoða litlu hliðargöturnar með smávörunum. Þess má til gamans geta að þetta er fyrsta utanlandsferðin okkar síðan Ýr dóttir okkar fæddist. Hún hefur ferðast með okkur frá sex mánaða aldri til sex landa og því var mjög skrýtið að hafa hana ekki með okkur. Aftur á móti var líka nauðsynlegt að fá að vera tvö ein á flakki, svona eins og við vorum vön að gera.

Þangað til næst…

Ég er á instagram

Guðfinna Birta

 

About The Author

Guðfinna Birta
Ritstjóri og færsluhöfundur

Guðfinna er einn eigandi Gekkó með endalausa þörf fyrir ferðalögum og oftar en ekki með 3-4 ferðir í pokahorninu. Hefur ferðast mestmegnis í Bandaríkjunum og Asíu - en tekið ástfóstri við Mið-Austurlöndin síðastliðin ár. Guðfinna talar líka um ferðalög með börn, enda engin ástæða fyrir því að hætta ferðast til framandi landa þó það fjölgi í fjölskyldunni.

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.