Í mörgum tilfellum er ódýrara/þægilegra að bóka íbúð í gegnum Airbnb frekar en hótel herbergi. Tala nú ekki um ef maður er með fjölskylduna með sér. Þá er töluvert betra að vera með íbúð heldur en að vera föst inn á hótelherbergi.

Ég hef oft leigt íbúð í gegnum Airbnb og lært því heilmikið á því á leiðinni. Ég hef líka leigt íbúðina mína út þannig að ég hef setið báðum megin við borðið. Fólk (þá oftast eldra en ég) finnst þetta gjarnan vera flókið og fallast hendur á að velja hvaða íbúð á að velja og afhverju. Ég ætla að koma með nokkur ráð sem ég hef lært og vona að allir geti notað.

1. Engin umsögn = ekki þess virði

Þegar að ég fór til New York ákváðum við að gista í íbúð sem leit ótrúlega vel út. Aftur á móti var host-inn ekki með neinar umsagnir. En við hugsuðum með okkur, æ einhverstaðar verður fólk að byrja. Þannig að við bókuðum þetta. New York var fyrsti áfangastaðurinn okkar í Bandaríkjareisunni. Þegar að við lentum í New York voru fyrstu skilaboðin að viðkomandi hafði cancel-að gistingunni. Sem betur fer bætir Airbnb manni það upp en þeir endurgreiða manni að fullu + auka peningur fyrir óþægindin. Við enduðum á að finna okkur gistingu á 3 mismunandi stöðum sem var mjög pirrandi. Ég er ekki að segja að þeir sem eru ekki með neinar umsagnir séu scamartistar og að þeim sé ótreystandi. En spáið aðeins í þessu og reynið frekar að velja einhvern sem er með umsögn, sérstaklega á fyrsta áfangastað.

2. Lesið umsagnirnar

Hverju eruð þið að leita af? Lesið fyrrum umsagnir og skoðið einkunargjöfina. Fólk er oftast mjög heiðarlegt í commentum og auðvelt að sjá í gegn ef eitthvað stóðst ekki væntingar. Íbúðin okkar sem við leigðum út fékk alltaf fullt hús stiga nema í location þar sem hún var ekki stödd miðsvæðis. Ef ykkur er sama um staðsetningu en viljið t.d. hreina íbúð og góð samskipti kíkið þá hvað host-inn hefur verið að fá í einkunn.

3. Takið myndir

Ég lenti í því atviki í Tékklandi að eftir að við komum heim fékk ég kröfu á mig upp á 400 evrur vegna þess að ég átti að hafa sett brunablett í sófann hjá hostinum. Ég fór í algjöran mínus, fór fram og til baka í hausnum hvort ég hefði verið með sléttujárnið þar eða hvort bletturinn hafði komið af einhverju öðru t.d. matarkyns  (Ég var komin það langt í hausnum að ég hélt að ég hefði verið með gleraugu þarna, sólin hefði skinið í gegn og þannig komið blettur). En mér fannst það samt svo langsótt og ég vissi það innst inni að ég kom ekki nálægt þessum blett. Host-arnir sögðu mér að þær væru 100% vissar um að þetta hefði verið eftir okkur og ég hugsaði með mér að ég ætti ekki séns. Ég þyrfti bara að gjöra svo vel að borga þennan 50 þúsund kall. Nema ég rauk af stað, skoðaði albúmin og langaði að sjá hvort ég hefði tekið mynd af sófanum. Kom svo í ljós að ég tók myndir af ÖLLU nema sófanum. En pabbi hefði fyrir fáránlegri tilviljun, tekið mynd af sófanum þar sem ferðataskan var óopnuð og einungis 20 mínútur síðan við komum inn í búðina. Þar mátti greinilega sjá hinn umtalaða blett. Ég sendi myndina á hana og fékk heila blaðsíðu af afsökunarbeiðni. Þetta var virkilega leiðinlegt mál og því hef ég sett mér þá reglu að taka myndir af öllu til þess að lenda ekki í þessu aftur. Má þetta vera ykkur víti til varnaðar!

4. Aukagjöld

Sumar íbúðir eru með tryggingargjald, svona til að fyrirbyggja að maður skemmi eitthvað. Ég mæli ekki með að bóka íbúðir með of hátt tryggingargjald, einfaldlega því það er hægt að finna íbúðir sem eru ekki með slíku. Þetta er bara auka peningur til þess að hafa áhyggjur af að “fá til baka” – Allavega ekki þess virði að mínu mati. Svo eru það oftast þrifgjöld sem þarf að taka líka með í reikninginn. Þau eru oftast á mjög sanngjörnu verði (30$ c.a). Airbnb tekur svo alltaf % til sín þannig að þið getið skoðað sundurliðunina á reikningnum áður en þið bókið eignina.

Auðvitað hugsar fólk með sér: er þetta virkilega þess virði? Mér finnst það ekki spurning. Ég kýs í flestum tilfella að gista í Airbnb eign nema að hótel gistingin sé ódýrari og með betri aðstöðu eins og í Qatar. Mér finnst frábært að vera í íbúð og í heimilislegu andrúmslofti, eldað mér hafragraut á morgnana og spjalla við nágranna.

Hérna fáið þið 25$ afslátt af ykkar fyrstu gistingu á Airbnb! Njótið. www.airbnb.com/c/gvalgeirsdottir

 

About The Author

Guðfinna Birta
Ritstjóri og færsluhöfundur

Guðfinna er einn eigandi Gekkó með endalausa þörf fyrir ferðalögum og oftar en ekki með 3-4 ferðir í pokahorninu. Hefur ferðast mestmegnis í Bandaríkjunum og Asíu - en tekið ástfóstri við Mið-Austurlöndin síðastliðin ár. Guðfinna talar líka um ferðalög með börn, enda engin ástæða fyrir því að hætta ferðast til framandi landa þó það fjölgi í fjölskyldunni.

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.