Það eru ekki margir staðir á Íslandi sem eru enn jafn fámennir og ósnertir af ferðamennskunni, eins og Melrakkasléttan er. Hún er líklega einn af fáum stöðum Íslands þar sem maður keyrir stundunum saman, án þess að mæta nokkrum einasta bíl – hvað þá rútum fullum af ferðamönnum. Það helsta sem blasir við er fjöldinn allur af fuglum sem setjast þar að á sumrin, hrá náttúran og kyrrðin – sem er einmitt það draumkennda við sléttuna. Hún er því alger paradís fyrir náttúruunnendur sem vilja kúpla sig aðeins út úr amstri hversdagslífsins, taka því rólega og njóta.

Við fyrstu sýn virðist kannski ekki vera svo mikið að sjá og skoða á sléttunni, en það er þó sitt hvað hægt að gera en hér að neðan hef ég tekið saman nokkra af mínum uppáhaldsstöðum sem ég mæli með að skoða!

Rauðinúpur

Rauðinúpur er um 75 m hátt bjarg, eða öllu heldur eldfjall, frá ísöld sem rís hátt úr hafinu og er viðkomustaður ýmissa sjófugla sem þangað sækja. Nafnið á núpnum er dregið af berginu sem er þar í kring, en bjargið er fallega rautt á litinn og þess virði að skoða. Frá því er fallegt útsýni yfir Melrakkasléttu og rétt hjá núpnum stendur Rauðanúpsviti, með útsýni yfir Atlantshafið. Tvær gönguleiðir eru að svæðinu, báðar fallegar á sinn hátt. Frá bænum Núpskötlu liggur stígur yfir stórgrýtta strönd en fyrir þá sem vilja taka lengri göngu er hægt að keyra að bænum Grjótnes og ganga þaðan, en vegurinn að býlinu er aðeins fær jeppum.

Rifstangi og Hraunhafnartangi

Tveir nyrðstu tangar meginlands Íslands, sá fyrrinefndi aðeins norðar en sá síðarnefndi. Á Hraunhafnartanga er að finna vita sem stendur við brimið, en þar til nýlega var hann talinn vera nyrðsti tangi meginlandsins. Á Rifstanga stendur svo aftur á móti eyðibýlið Rif, en þangað er fínasta ganga frá þjóðveginum og vel þess virði að labba alla leið, því það eru ekki allir sem geta státað sig af því að hafa staðið á nyrðsta hluta landsins!

Veiðivötn

Það er ekki skortur á stöðuvötnum og öðrum tjörnum á Melrakkasléttu og svo segir sagan að þar sé allt fullt af fisk, þó aðallega bleikju og urriða. Nauðsynlegt er þó að hafa veiðileyfi til að veiða á sléttunni og auðvitað að kynna sér hvar það má og hvar ekki. En veiða eða ekki, þá mæli ég með því að fara í lautartúr við eitthvert vatnið, baða sig í sólinni og jafnvel að taka einn stuttan sundsprett eða svo – enda alltaf sól og blíða þarna fyrir norðan.

Heimskautsgerðið

Hugmyndin með Heimskautsgerðið er sótt frá Snorra-Eddu og er einskonar sólarklukka, alveg ótrúlega stór sólarklukka sem á aðeins eftir að stækka. Framkvæmdirnar eru ekki búnar og á gerðið því eftir að taka þó nokkrum breytingum næstu árin, en tilgangur þess er að virkja miðnætursólina og mynda samspil ljóss og skugga sem sýna eiga eyktarmörkin. Inní gerðinu, sem er 52 metrar í þvermál, standa stórir steinar sem hver og einn táknar einn 72 dverga Völuspáar. Hver dvergur stendur svo fyrir 5 daga ársins, en samkvæmt íslenskum fornbókmenntum er talið að hver vika hafi aðeins verið 5 dagar og því samtals 72 vikur í árinu. Háfræðilegt allt saman, en ég mæli með að þeir sem hafi áhuga lesi sig betur um Heimskautsgerðið þar sem það er margt fleira spunnið í þetta stóra verkefni.

Raufarhöfn

Raufarhöfn státar sig af því að vera nyrðsti bær Íslands sem staðsettur er á meginlandinu og var eitt sinn einn mikilvægasti síldarsöltunarstaður landsins. Enn er sjávarútvegurinn helsti atvinnuvegur þorpsins og er Raufarhöfn að mínu mati eitt krúttlegasta sjávarþorpið sem ég hef skoðað hingað til. Skemmtilegt er að rölta um þorpið og meðfram sjónum, upp hjá kirkjugarðinum og skoða útsýnið frá vitanum sem þar stendur. Einnig er hægt að skoða gamlar minjar frá stríðsárunum, sem enn standa á hæðinni fyrir ofan þorpið. Það er svo upplifun að kíkja í kaffi og köku í kaupfélagi bæjarins, en það hefur verið innréttað á mjög skemmtilegan hátt sem er gaman að sjá.

Rauðanes

Rauðanes er þekkt fyrir fallegt landslag og skemmtilegar gönguleiðir, en það er staðsett á suðausturhluta Melrakkasléttunnar og skarar út í sjóinn og má þar finna margslungið landslag og áhugaverðar hraunmyndanir. Ég hef satt best að segja enn ekki komið á Rauðanes, en það verður vonandi bætt úr því sem fyrst og skellt inn myndum!

About The Author

Selma Kjartansdóttir
Færsluhöfundur

Selma Kjartans

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.