Ætliði með barnið með ykkur? Er þetta ekki fulllangt ferðalag fyrir ungabarn? Hvað í ósköpunum ætliði að gera í Mið-Austurlöndunum? Vitiði ekki hvað það er hættulegt að vera þarna?

..Já þetta er brotabrot af þeim spurningum sem við fengum þegar að við ákváðum að verja jólum og áramótum í Qatar og Dubai. Þetta virðist vera normið að fólk kippi sér upp við það ef maður ákveður að ferðast einhvert annað en til Evrópu eða Bandaríkjana. En afhverju? Hvaðan kemur þessi fáfræði?

Ef við byrjum á byrjuninni og eyðum út þeirri mýtu að það sé svo langt að fara þangað þá langar mig að  útskýra flugáætlunina nánar. Við flugum frá Keflavík til London sem er um þriggja tíma flug. Þá fórum við niður í miðbæ London og eyddum deginum á Oxford Street. Næsta flug var svo um kvöldið. Flugtíminn frá London til Qatar er c.a. 6 og hálfur tími. Við vorum heppin að því leyti að þetta var næturflug þannig að við sváfum vært allt flugið og dóttir mín líka.  Það er bara svo fyndið að fólk gagnrýni þennan langa tíma á meðan það hikar ekki við að bóka sér ferð til Flórida þar sem flugið tekur 8 tíma. Auðvitað tekur það tíma fljúga til Qatar en mér finnst það ekki skipta það miklu máli þar sem að við vorum ekki í samfelldum flugum allan tímann og fengum pásu til þess að fara niður í miðborg London og slaka aðeins á. Tala nú ekki um frelsið að fara einhvert annað á glænýja áfangastaði. Ég tek lengri flug langt fram yfir það að fara á sömu áfangastaðina aftur og aftur.

Allavega. Þegar að við lendum í Qatar tekur á móti okkur hægasta vegabréfaeftirlit sem ég hef kynnst. Við lentum líka í þessu þegar að við fórum til Dubai fyrir þremur árum en þar vinna menn bara eftir eigin hentisemi og voru mjög lengi að skanna og samþykkja vegabréfin. Mesti plúsinn við að ferðast með barn er að maður fær alltaf forgang og það hjálpaði heilmikið að fá að vera aðeins á undan. Segið svo að það sé ekki bónus að vera með barn meðferðis?

Við létum hótelið sækja okkur á flugvöllinn sem við gerum aldrei en við vissum að við yrðum dauðþreytt eftir ferðalagið og myndum vilja bara hafa þetta sem einfaldast og best. Við gistum á Shangri-La hótelinu sem var æðislegt hótel og lagði mikið uppúr því að við myndum fá sem bestu upplifunina. Dóttir mín fékk rosalega mikla athygli og alltaf þegar að við komum að hótelinu í leigubíl voru starfsmennirnir byrjaðir að taka kerruna úr skottinu, hjálpa okkur með hana og meira segja að leika við hana þegar að við þurftum að græja eitthvað. Aldrei er góð vísa of oft kveðin en að halda það að fólk í Miðausturlöndum sé að einhverju leyti verra en vesturlandabúar byggist einungis á fáfræði og mér finnst miður. Niðurstöður ferðarinnar voru eftirfarandi: Við fundum ekki fyrir neinum fordómum eða hornaugum þegar að við vorum í Qatar. Fólkið þarna var alveg eins og venjulegt fólk (sjokkerandi niðurstöður ekki satt?) . Ef eitthvað er voru Qatarar(?) vinalegri heldur en Vesturlandabúar.

 

Svo var spurningin um hvað í ósköpunum við ætluðum að gera þarna mjög fyndin. Hvað gerirðu í útlöndum? Ferð í sólbað? Já þú getur alveg gert það í Qatar. Ferð á listasafn? Já þú getur alveg gert það í Qatar. Borðar góðan mat? Getur svo sannarlega gert það í Qatar! Versla? Hjálpi mér heilagur Qatar er frábær staður til að versla! Það er alveg hægt að gera jafnmikið hvort sem þú ert staddur á Tenerife og Qatar.

Ég hvet alla með börn að brjótast aðeins út úr Tenerife/Alicante/Florida norminu og leita aðeins lengra. Fara á aðra staði og víkka aðeins sjóndeildarhringinn. Þið hafið svo gott af þessu. Heimurinn er ekki svona hræðilegur, ég lofa.

 

E.S. Ef þið hafið einhverjar spurningar um ferðalagið þá er ykkur meira en velkomið að setja ykkur í samband við mig.

Guðfinna Birta

About The Author

Guðfinna Birta
Ritstjóri og færsluhöfundur

Guðfinna er einn eigandi Gekkó með endalausa þörf fyrir ferðalögum og oftar en ekki með 3-4 ferðir í pokahorninu. Hefur ferðast mestmegnis í Bandaríkjunum og Asíu - en tekið ástfóstri við Mið-Austurlöndin síðastliðin ár. Guðfinna talar líka um ferðalög með börn, enda engin ástæða fyrir því að hætta ferðast til framandi landa þó það fjölgi í fjölskyldunni.

Related Posts

2 Responses

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.