Ísland er fallegt land sem hefur upp á margt að bjóða og um að gera að skella sér í ferðalag í sumar þrátt fyrir rigningu. Okkur finnst virkilega skemmtilegt að heimsækja nýja staði á Íslandi sem við höfum aldrei séð áður og erum ansi dugleg að merkja áhugaverða áfangastaði inn á “bucket-listann” okkar. Í þessari færslu langar okkur að deila nokkrum fallegum fossum, heitum laugum og fleiru með ykkur og vonum að þið finnið nýja staði til þess að skoða í sumar.

Áfangastaðirnir í þessari færslu eru á vestfjörðum, norður- og austurlandi þar sem suðurlandið hefur verið í brennidepli síðastliðin ár. Hér getið þið einnig lesið um fallega staði á Snæfellsnesi. Endilega sendið okkur skilaboð á instagram ef spurningar vakna um staðina eða ef ykkur langar að vita um fleiri! 

Vestfirðir

Dynjandi

Stærsti foss Vestfjarða og einn fallegasti foss Íslands.

Látrabjarg

Stærsta sjávarbjarg Íslands og vestasti oddi landsins. Fullkominn staður fyrir fuglaáhugafólk en þar má til dæmis finna Lunda á sumrin.

Rauðisandur

Falleg rauðleit strandlengja á sunnanverðum vestfjörðum. Sandurinn fær rauða litinn vegna skeljabrota frá Hörpudiskskeljum en birtan hefur einnig áhrif á litinn. Frábært útsýni er frá ströndinni og á góðum sumardegi má sjá Snæfellsjökul.

Krossholtslaug

Ein af perlum Vestfjarða, sundlaug og náttúrupottur í Birkimel á Barðaströnd. Það kostar 700 kr að nota aðstöðuna en peningurinn er notaður til þess að halda henni við.

 

Norðurland

Hvítserkur

Fallegur hvítleitur klettur sem lítur út eins og dreki að drekka vatn. Hvíti liturinn kemur af fugladriti en mikið dýralíf er í kring um klettinn, þá aðalega fuglar og selir.

Goðafoss

30 metra breiður foss í sérstaklega skemmtilegu umhverfi nálægt Mývatni. Hægt er að ganga alveg niður að fossinum jafnt og njóta hans frá klettunum í kring.

Krafla (Víti)

Annar af tveimur þekktustu sprengigígum á Íslandi (hinn er í Öskju). Víti í Kröfu myndaðist árið 1724 í Mývatnseldum. Í botni gígsins er skærblátt vatn og hlíðar hans eru fallega appelsínugular.

Grettislaug

Laugin er staðsett nálægt Sauðárkrók og er nafn hennar dregið frá Gretti Ásmundarsyni. Hún er um 39-40°C heit.

grettislaug geothermal pool in iceland with stairs
Mynd: Google

 

Austurland

Gufufoss

Ef það er mikið í ánni (Fjarðará) sem fossinn myndast úr lítur hann dálítið út eins og smærri gerð af Skógarfoss. Í Fjarðará eru um 25 fossar og nokkrir mjög fallegir í grennd við Gufufoss.

GoOnTravel.de: Der Gufufoss in den Ostfjorden auf Island
Mynd: Google

 

Vestrahorn (Stokksnes)

Vestrahorn er einstakt fjall sem mætir svartri fjöru. Staðurinn hefur fengið mikla athygli undanfarin ár, enda engin furða, þessi staður er klikkaður! Fjallið hægra megin við hliðina á Vestrahorni er stundum kallað Batmanfjallið þar sem það lítur út eins og Batmanmerkið, með 3 tinda sem standa upp.


Mynd: Google

 

Hengifoss

Einn af hæstu fossum landsins, bergveggirnir í gljúfrinu sýna ólík basalt jarðlög frá Tertíertíma. Í grennd við hann er annar mjög fallegur foss umkringdur stuðlabergi, sá kallast Litlanesfoss.

Image result for hengifoss
Mynd: Regína Hrönn

Hoffell, heitir pottar

Í lokin langaði okkur líka að setja inn heita laug/potta fyrir austurhluta landsins, þessir eru á bucket-listanum okkar í sumar!


Mynd: Google

 

Njótið sumarsins!

Tanja & Sverrir

@icelandic_travelers

 

Lesið líka

Sólin sem hataði Ísland – Jólaflótti í Farvatninu

Náttúrulaugar á Íslandi – mitt laugablæti

Náttúruperlur Íslands – Partur 1.

Staðalbúnaður útivistagarpsins

About The Author

Tanja og Sverrir eru ferðaglatt par sem finnst fátt skemmtilegra en að skoða nýja staði saman. Frá því þau byrjuðu saman hafa þau ferðast mikið um Ísland jafnt og aðra staði í Evrópu. Þau hafa mikinn áhuga á ljósmyndun og reyna að fanga öll þeirra dýrmætustu augnablik á filmu. Auk þess að blogga hér eru þau með Instagramið @icelandic_travelers þar sem hægt er að fylgjast nánar með ævintýrum þeirra.

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.