Ég hef heyrt margar efasemdaraddir  sem hafa vakið upp margar spurningar hjá mér. “Er ég klikk að ætla að fara ein út í lengri tíma?”, ” Á ég ekki bara eftir að vera ótrúlega einmana og með heimþrá?”,  “Verð ég örugg?”  En nei, ef ég hefði tekið of mikið mark á þessum röddum sæti ég enn heima og hefði ekki upplifað alla snilldina. Ég hefði ekki búið hjá heimamönnum í Kenýa, hefði ekki farið í safarí, ekki kafað með Nemófiskum, ekki farið í ziplining í Kosta Ríka, ekki hjólað um sveitir Víetnam og ekki kynnst öllu áhugaverða fólkinu á ferðalögunum mínum.

Að vera kona og ferðast ein er ótrúleg reynsla sem hefur kennt mér rosalega margt um sjálfa mig. Það hefur krafið mig um að fara lengst út fyrir þægindahringinn, gert mig sjálfstæðari, sterkari og hefur bætt utan á skrápinn. Staðreyndin er líka sú að ég er langt frá því að vera sú eina sem hefur upplifað þetta. Það eru ótrúlega margar stórkostlegar konur út um allan heim að ferðast einar síns liðs, sumar bara  17-18 ára gamlar.

Sjá einnig: Eyrún Lydía Jöklaleiðsögukona: Afhverju ég ferðast ein

Þrátt fyrir hugmyndir sem kvikmyndir eins og Taken og Hostel ýja að, þá er heimurinn ekki alslæmur og það ætla ekki allir að skera þig í búta eða selja þig í vændi.  Sem kona upplifi ég hið ókunnuga sem ógnandi sem hvetur mig engan veginn til að fara erlendis og njóta. En sannleikurinn er samt sá að ef þú ferðast á ábyrgan hátt og leyfir heilbrigðri skynsemi að stjórna ferðinni þá þarf hættan ekki að vera meiri en í þínum eigin heimabæ.

“Aldrei myndi ég þora þessu” er setning sem ég hef heyrt oftar en ég get talið. Ég er bara venjuleg kona og þarf ekki að vera ofurhetja til að berjast í gegnum heiminn- hann er ekki svo slæmur. Ef ég get ferðast ein- þá getur þú það. Spurningin er bara hversu mikið þú vilt það.

Eitt af því sem hélt eitt sinn aftur af mér var sú hugmynd að ég myndi verða svo einmana á ferðalögum mínum. Að hafa tækifæri til að læra að vera ein með sjálfri mér er eitthvað sem ég met mjög mikils í dag og stundum kýs ég minn eigin félagsskap fram yfir annarra á löngum ferðalögum. Hinsvegar er fegurðin við það að ferðast með bakpokann ein sín liðs að þú þarft ekki að vera ein ef þú vilt það ekki. Á hostelum út um allan heim er fólk í sömu stöðu  og þú sem tekur þér opnum örmum og vill ekkert frekar en að kynnast þér.  Ég get ekki talið hversu marga vini ég hef eignast á mínum ferðalögum. Þessi vinátta er ómetanleg. Jafnframt er sú hugmynd að allar konur sem ferðast séu einhleypar, orðin úrelt. Það ætti ekki að halda aftur af neinni konu, eða neinni manneskju að ferðast ein síns liðs þó svo að kæró sé ekki tilbúin að drífa sig af stað.

Sjá einnig: Láttu Alheiminn grípa þig: að ferðast með hjartanu

Ég nenni ekki að bíða eftir að einhver, hvorki kæró né vinirnir séu tilbúin að leggja sitt til hliðar og fara að ferðast með mér. Þess vegna fer ég ein. Og það er bara algjör snilld. Ein besta ákvörðun sem ég hef tekið. Og held áfram að taka, aftur og aftur.

Ef þú ert kona sem ert að fara ein þíns liðs í ferðalag þá vil ég bara segja þér að það er ekkert að því að vera stressuð. Jafnvel núna, eftir að hafa ferðast ein frá árinum 2012 þá fæ ég ennþá fiðrildi í magann og hugsa með mér að nú hafi ég gert stór mistök. Þessar tilfinningar hverfa ofast stuttu eftir þú kemur á nýja staðinn og ferð að upplifa. Ég hef aldrei séð eftir ferðalögunum mínum- og hef enga trú á að þú gerir það heldur.

Rakel Rós

 

About The Author

Gestabloggarar eru ýmsir aðilar sem hafa frumsent okkur greinarnar sínar eða leyft okkur að endurbirta greinar eftir sig af öðrum miðlum. Vilt þú birta færslu á Gekkó? Ýttu á umslagið í horninu eða sendu okkur póst á ritstjorn@gekko.is og við kíkjum á þetta saman!

Related Posts

One Response

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.