Ég er að fara til Indlands með millistoppi í Gautaborg á morgun. Þessi vika hefur einkennst af ferðakvíða, hnút í maganum og góðum dassi af samviskubiti eða sektarkennd.

Ég er 26 ára og hef ferðast alveg mikið frá því ég var 21 árs. Á þessum tíma sem ég hef ferðast hefur pabbi minn glímt við krabbamein og þann 26. september 2016 tapaði hann baráttunni og kvaddi þennan heim. Eins og við má búast hef ég reglulega horft til baka með samviskubit niður í tær, ásakað sjálfa mig og verið full eftirsjár um að hafa ekki verið meira til staðar. Á milli sjálfsásakandi hugsana hugga ég sjálfa mig við það að vita það að pabbi var alltaf stoltur af mér. Sama hvað ég gerði og sama hvað ég tók mér fyrir hendur þá hvatti hann mig áfram til að gera það sem gerði mig hamingjusama. Ég hef farið erlendis til að leita að einhverju sem ég hef ekki fundið. En ég veit í dag að það sem ég er að leita að býr innra með mér, en það er þrautinni þyngra að finna þetta. Ég held þið vitið örugglega alveg hvað ég er að tala um. Ég er að tala um sjálfssátt, innri frið og innri ró. 

Ég hef frá unga aldri verið mjög sjálfsstæð, sökum þess ég átti foreldra sem voru bæði í eldri kantinum og í ofanálag var fjölskyldan menningarlega blönduð. Ég er menningarmiðill og túlkur í dag og ekkert af ástæðulausu. En mitt starf sem túlkur hefur fylgt mér síðan ég man eftir mér og fékk ekkert um það að velja. Ég var meðvituð af vandamálum innan fjölskyldunnar sem ég átti ekki að vita af og á mig var lögð mikil ábyrgð. Ábyrgð sem ég var ekki og hef ekki verið sátt við sem barn þá, né fullorðinn einstaklingur í dag.

Þessi bakrunnur hefur orðið til þess að ég hef nánast alltaf ferðast með samviskubit.

Eins og t.d. samviskubit yfir því að vera ekki til staðar, þegar fólk þarf á mér að halda… og samviskubit yfir því að vera að “skemmta mér” þegar ég “á að vera að gegna skyldum mínum” sem dóttir. Samviskubit yfir því að vera eyða peningunum mínum þegar ég ætti kannski frekar að vera safna þeim fyrir eitthvað “gáfulegra”. Það að pabbi minn var veikur spilar auðvitað risa stóran þátt, en núna er hann farinn, og ég er samt með nagandi samviskubit yfir því að vera að fara… og skilja mömmu mína eftir. Hún er ekki einu sinni veik… og getur bjargað sér sjálf… þó hún þykist stundum ekki geta það. Ég get ekki ímyndað mér hvernig ég verð þegar ég verð móðir ef ég geri ekki eitthvað í þessu!

 

Ég elska að ferðast, og ég ferðast til að víkka sjóndeildarhringinn minn. Ég ferðast til að skilja heiminn betur, sem og sjálfa mig. Þessi tiltekna ferðaþrá er þyngdarafl sem togar mig að sér. Ef ég sinni ekki þessari þrá þá fæ ég innilokunarkennd og ég missi sjónar á sjálfri mér og lífinu. Ég fæ lífsleiða og mér líður yfirþyrmandi illa. En svo hef ég spurt sjálfa mig að því hvort þessi ferðaþrá sé hugvilla. Kannski meika ég bara ekki meðvirknina í sjálfri mér og ég bara er AÐ KAFNA í tilætlunarsemi fólksins í kringum mig (sem ég elska) og í pressu samfélagsins um að ég verði nú að vera fyrirmyndar samfélagsþegn… en ég bara meika ekki meir, get ekki meir og vil ekki meir. Fokkin ei. Ég er alveg meðvituð um að ég er djöfulli hörð við sjálfa mig… ég hef samúð með öllum sem eru að tengja.

Svo er ég að fara út… og helvítis samviskubitið er bara að éta mig upp að innan. Ég finn fyrir því eins og hnút sem ofinn er kvíða sem hvorki vill borða né sofa og hvetur mig til að efa ásetning minn. Raddirnar í hausnum á mér skiptast á að hvetja mig áfram og brjóta mig niður. Kannski ætti ég bara að halda mér heima og kúpla mig undir sæng.

Ég er komin á þann stað í minni eigin sjálfsvinnu að ég er nokkuð meðvituð um það að samviskubitið sé alið í mig, og það er örugglega alið í aðra hverja manneskju eins mikið og það er alið í mér. Einhverjir fá samviskubit yfir því að vera bara að njóta lífsins og “drolla” á meðan það gæti verið að mennta sig eða vinna heima fyrir til að safna fyrir íbúð. Fólk fær samviskubit yfir ýmsu, en það sem mér finnst svolítið einkenna meðvirknisamfélagið okkar er að mörgum okkar er kennt að skammast okkur fyrir það að vilja standa með okkur sjálfum. Fyrir að gera tilraunir til að elta draumana okkar og finna okkur.

Ég er á þeirri skoðun að við fæðumst í þennan heim fyrir okkur sjálf og við verðum að lifa fyrir okkur sjálf, en samt er ég líka á þeirri skoðun að án sambandanna okkar og samfélagsins erum við ekki neitt. Við verðum að spila með… en samt megum við ekki láta spila með okkur. Þetta fyrirhugaða ferðalag mitt er ekki uppgjöf. Ég er með skýran ásetning og hann er að læra að treysta á sjálfa mig og standa með sjálfri mér. Ég er að fara gera hluti sem ég elska og hluti sem ég hef hingað til sannfært mig um að ég eigi ekki skilið og sé ekki nógu góð til að eiga þá skilið. Ég veit að ég kveð ekki gamla vin minn, samviskubitið á einni nóttu… En ég mun gera mitt besta.

x Elín

About The Author

Elín Kristjánsdóttir
Ritstjóri, vefstjóri og færsluhöfundur

Án Elínar væri Gekkó ekki til. Hún er stofnandi og einn af eigendum Gekkó, og nýtur hvert tækifæri sem gefst til að pakka í tösku og fara í ferðalag eða einhverskonar ævintýri. Einnig er hún líka mikið úthafs og náttúrubarn og hefur gaman að öllu sem viðkemur vatnasporti og fjallamennsku. Elín spáir mikið í mannlega þættinum og tilgangi lífsins og elskar að vinna með fólki. Hún hefur m.a. lært að kenna þerapíuna Lærðu að elska þig eftir Guðbjörgu Ósk Friðriksdóttur og er því viðurkenndur kennari í Þerapíunni. Elín hjálpar fólki að öðlast sjálfstraust til að lifa lífinu á eigin forsendum.

Related Posts

3 Responses

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.