Lauflétt viðvörun!
Ef þú átt ekki barn/eða ert ekki barnshafandi er mjög ólíklegt að þú hafir gaman af þessari grein!

Ég var mjög stressuð þegar að ég varð ólétt hvað framtíðin bæri nú í skauti sér þar sem ég var að fara verða mammaÁhyggjurnar voru af því tagi  að endalausa ferðaþráin mín yrði að sitja á hakanum og ég fengi ekki að gera þá hluti sem ég dýrka að gera, sem er vitaskuld að ferðast. Því ákvað ég að girða mig í brók og hætta að láta svona hugsanir stoppa mig.

Núna hefur dóttir mín ferðast með okkur um öll heimsins horn og farið til sex landa með okkur. Spurningarnar sem við fáum eru oftast á borði við: ,,ha – fer hún með?” ,,ætlið þið í alvöru að taka hana með ykkur?” ,,viljið þið ekki bara vera ein?” ,,er þetta ekki mikið vesen?” ,,hvernig nennið þið þessu?”

Sjá einnig: ,,Ætliði með barnið til Mið-Austurlandanna?”

Æ ég veit ekki. Mér finnst spurningarnar alveg jafn skiljanlegar og mér finnst þær sorglegar. Fólk upplifir stundum það að ferðast með barn sem einhverskonar byrgði.  En mér finnst ég lánsöm að búa yfir þeim forréttindum að geta tekið dóttir mína með mér í öll mín ferðalög (Ekki misskilja samt – Við Stefán eigum alveg eftir að fara í útlandaferð bara við tvö ;))

Ég ætla ekkert að skafa af því en ég hef alveg lent í flugum með Ýri þar sem ég hélt að ég myndi missa vitið. En ávinningurinn er svo yndislegur. Hún hittir fullt af fólki og fær að skoða heiminn og er orðin þokkalega sjóuð í að ferðast, þrátt fyrir að vera ekki orðin tveggja ára. Mér finnst þetta dásamleg fjölskyldustund þó svo að þetta sé ekki ódýrasta tegundin.

Þegar að maður var yngri var þetta ekki í boði, allavega ekki á mínu heimili. Sjálf fór ég í fyrstu utanlandsferðina mína 7 ára og eldri systkini mín voru að fara í fyrsta skipti í flugvél um 16 ára aldurinn. Ferðalög voru ekki svona auðveldur hlutur eins og þeir eru í dag og mér finnst það eiginlega skylda að notfæra sér þessi forréttindi.

En nóg af pælingum og meira að praktískum hlutum. Ég hef tekið saman smá lista og góða punkta fyrir foreldra til þess að hafa í huga þegar að þið eruð að ferðast með börnin. Í ágúst var ég með Gekkó Instastory og tók saman nokkra hluti sem ég pakka í ferðalög. Sumt er almenn vitneskja en ég er búin að vera dugleg að sanka að mér ýmsum punktum sem geta komið ykkur að góðum notum fyrir komandi ferðalag. Góða ferð! x

Sjá einnig: ,,Kúnstin að pakka fyrir flug með ungabarn”

Handfarangur fyrir barnið

Í handfarangrinum finnst mér gott að taka með litla tösku sem hún á með því allra nauðsynlegasta. Auðvitað er það misjafnt eftir því hvað flugið er langt og hvaða flugfélagi þið eruð að fljúga með en þetta er svona gott dæmi um 3-4 tíma flug með wowair/icelandair.

 • Bleiur
 • Blautþurrkur
 • 1x sett af fötum
 • Cheerios og skvísa
 • Lítið dót sem barnið elskar
 • Eyrnaolía

Handfarangurinn ykkar

 • Ég mæli alltaf með því við alla að kaupa nýtt dót fyrir barnið. Þetta þarf ekki að kosta mikið en gott er að kaupa dót sem barnið hefur ekki séð því það eyðir heilmiklum tíma í að skoða það!
 • Auka skvísur
 • Teppi (ég nota oftast trefilinn minn)
 • Heyrnatól (Peltor er líka sniðugt fyrir þau allra minnstu ef hávaðasamt er í vélinni)
 • Ipad
 • Auka snuð
 • Stílar

Innritaður farangur

Börn eiga ekki alltaf rétt á innrituðum farangri. Kynnið ykkur málið hjá flugfélaginu sem þið fljúgið með. Hægt er að kaupa aukatöskur en af fenginni reynslu finnst mér best að reyna vera útsjónarsöm í pakkningum því það er hundleiðinlegt að vera með ofmargar töskur á ferðalagi + með barn og kerru.

 • Nóg af fötum en stillið því í hóf. Þó svo að það sé gott að vera með nóg er margt sem er aldrei notað. Hægt er að nálgast þvottahús nánast hvar sem er í heiminum ef ferðin er löng.
 • Lyf (nurofen, tanngel, stílar)
 • Sólarvörn (ef á við)
 • Nóg af snuðum (þau týnast rosalega auðveldlega)
 • Barnamat/Þurrmjólk
 • Höfuðfat (ef það er heitt er gott að geta fyrirbyggt bruna í hársverði)
 • Sundföt og sólgleraugu (ef á við)
 • Krem/sjampó/næringu
 • Hárbursta og teygjur (mjög nauðsynlegt í mínu tilfelli þar sem dóttir mín er með sítt hár)

Bílstólar/Barnavagnar

Bílstólar og barnavagnar fljúga frítt með barninu. Þetta er algjör snilld. Ég mæli með því að kaupa kerrupoka fyrir kerruna. Ef að kerran er ekki í kerrupoka bera flugfélögin enga ábyrgð á skemmdum. Ég keypti mína á babyshop.co.uk og er hún af gerðinni Baby Jogger (Fær öll mín meðmæli). Ég hef líka flogið með barnavagn OG bílstól og það var ekkert mál. Bara svona ef einhver var að pæla í því.


Barnamatur

Ef þið eruð að ferðast til landa þar sem þið eruð óviss um að fáist hefðbundi matur barnsins (þurrmjólk/ella’s kitchen skvísur/cherrios) – Takið það með ykkur í ykkar innritaða farangurinn. Ég tók ekki sénsinn í Prag og Qatar með skvísur og þurrmjólk. Skvísurnar voru til í Qatar en ekki Prag. Mér finnst eiginlega mikilvægara að taka með nóg af barnamat heldur en fötum. En eins og ég segi, þá sérstaklega ef þið eruð óviss hvort þetta fáist á áfangastaðnum.

Ég hef fengið aragrúa af spurningum hvort það megi fara með barnamat í gegnum vopnaeftirlitið og svarið er já, það má.

Að lokum eru nokkrir hlutir sem ég vil koma út í kosmósið:

 • Athugið hvernig statusinn á vélinni er. Er hún smekkfull eða eru nokkur sæti laus? Taliði við yndislegu starfsmennina á check-in borðunum og athugið hvort þau geti ekki fiffað sætin svo að þið fáið lengju útaf fyrir ykkur. Vanalega ganga fólk með börn fyrir þessu því let’s face it – Það vill enginn sitja við hliðina á grenjandi barn í 4 tíma flugi.
 • Fólk með börn eru í forgangi. Við fáum alltaf að vera með þeim fyrstu inn í vélar og förum fram fyrir í löngum röðum. Það er snilld!
 • Stundum er líka gott að eyða nokkrum þúsundköllum og kaupa sæti. Við höfum 1x gert það og það var algjör lúxus og hverra krónu virði.
 • Sé ferðalagið lengra (og með stórum flugfélugum sbr. Emirates/Qatar/British Airways) er líklegt að fá sæti þar sem hægt er að koma fyrir barnavöggu á vegg fyrir framan. Endilega skoðið ykkar möguleika. Vaggan nær fyrir allt að 10 kg barn. Þetta er algjör himnasending í löngum flugum og hentar vel fyrir minni börnin (0-7 mánaða)
 • Mér finnst stundum gott að leita á Google af veitingastöðum sem eru good for kids. Það hjálpar heilan helling þegar að maður vill fara auðveldu leiðina.
 • Börn 2 ára og yngri borga skít og kanil fyrir fluggjaldið. Þannig að nýtið það og ferðist með þau!
 • Ekki hugsa ,,ohhh þetta verður svo mikið vesen” – Með þessu hugarfari verður þetta vesen.
 • Geymið flugmiðana. Ég er algjör safnari og vil eiga minningar þá allrahelst úr ferðalögum. Ég held að ég eigi alla flugmiðana hennar Ýrar!
 • Ekki vera hrædd við að prófa nýja áfangastaði. Plís. Fyrir mig. Fólk er fólk og það er vont og gott fólk allstaðar í heiminum.

Farið nú í ferðalag!
– Guðfinna

About The Author

Guðfinna Birta
Ritstjóri og færsluhöfundur

Guðfinna er einn eigandi Gekkó með endalausa þörf fyrir ferðalögum og oftar en ekki með 3-4 ferðir í pokahorninu. Hefur ferðast mestmegnis í Bandaríkjunum og Asíu - en tekið ástfóstri við Mið-Austurlöndin síðastliðin ár. Guðfinna talar líka um ferðalög með börn, enda engin ástæða fyrir því að hætta ferðast til framandi landa þó það fjölgi í fjölskyldunni.

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.