Ég hef yfirleitt farið í mínar lengri ferðir ein, og finnst mjög þæginlegt að ferðast ein því þótt ég sé mjög félagslynd og elska að vera í kringum fólk, þá bara verð ég að fá að kúpla mig út úr öllu og vera ein í smá tíma. Einnig finnst mér auðveldara að ferðast nákvæmlega eins og ég vil þegar ég ferðast ein.

Að ferðast hægt.

Ég vil yfirleitt ferðast hægar, vera lengur á einum stað og kynnast svæðinu. Það þýðir að suma daga geri ég í rauninni ekkert. Það hljómar kannski skrýtið þegar maður á að vera í æsispennandi reisu, en mér finnst æðislegt að vera með ekkert planað fyrir daginn og bara rölta um borgina sem ég er í. Mér finnst æðislegt að finna mér almenningsgarð eða kaffihús þar sem ég sit úti með kaffibolla eða svaladrykk og bara horfi á fólkið í kringum mig, án þess að þurfa að tala við neinn.

Taktu frá tíma fyrir sjálfa/n þig

Ég hef lent í því þegar ég gisti kannski hjá vinafólki eða hjá couchsurferum að það virðist sem að þau stressist upp þegar ég segist ekki ætla að gera neitt „ Ha?! Ætlarðu ekki að sjá þetta kennileiti? Eða prófa þessa afþreyingu?! Þú verður að prófa!“ og á tímabili fylltist ég að samviskubiti, fannst ég vera að sóa ferðinni. En það tók mig smá tíma að átta mig á því að ef ég vil ferðast hinum meginn á hnöttinn og sitja í almenningsgarði í nokkra daga, þá bara má ég það! Innst inni veit maður að þetta fólk sem þrýstir á mann vilja bara að maður upplifi allt sem þeirra heimabær hefur upp á að bjóða, en stundum þarf maður bara að gera ekki neitt! Að sjálfsögðu blandar maður þessu svolítið, maður tekur nokkra daga sem maður er á fullu að gera hitt og þetta og svo inn á milli sest maður niður og les bók í þrjá daga.

Hópþrýstingur

Þegar ég var í Nýja Sjálandi árið 2009 fór ég í þriggja vikna Kiwi Experience ferð. Ferðin var mjög aktív og var einhver afþreying í boði á hverjum degi og svo að sjálfsögðu stíf drykkja á hverju kvöldi. Einn daginn var ganga að hverasvæði. Ég var ekkert spennt fyrir þessu, ég vildi fá að setjast einhverstaðar og ekki tala við neinn í smá tíma, stunda smá íhugun og hlaða batterýin. Þegar ég sagðist ætla að vera eftir voru allir í sjokki og kepptust við að fá mig, ég tók því sem miklu hrósi ; heil rúta að væla því þau vildu ekki vera án mín í hálfan dag! Þannig ég gaf mig og fór með þeim …og fannst hundleiðinlegt! Að sjálfsögðu þarf maður stundum að kýla sig áfram þótt maður sé pínu þreyttur, en á sama tíma verður maður að vera duglegur að hlusta á sjálfan sig „Langar mig að sjá þennan hver? Eða langar mig að setjast ein og slappa af?“  Þarna hefði ég átt að hlusta á sjálfa mig og finna mér lítinn sama stað og slappa af.

Þannig ekki gleyma að þetta er ÞÍN ferð! Þetta er ÞITT frí og þú átt að eyða því NÁKVÆMLEGA eins og þú vilt!

 

SIGGA KOLLA

 

About The Author

Gestabloggarar eru ýmsir aðilar sem hafa frumsent okkur greinarnar sínar eða leyft okkur að endurbirta greinar eftir sig af öðrum miðlum. Vilt þú birta færslu á Gekkó? Ýttu á umslagið í horninu eða sendu okkur póst á ritstjorn@gekko.is og við kíkjum á þetta saman!

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.