Við skelltum okkur í 8 daga ferð um Marokkó í byrjun Nóvember sem er mjög vinsæll tími til þess að ferðast þangað. Marokkó er alveg einstaklega fallegt land með mjög ólíka menningu sem var áhugavert að kynnast. Í þessari færslu ætlum við að deila með ykkur hápunktum ferðarinnar okkar og hvernig planið var frá degi til dags. Myndavélarnar sem við tókum með í ferðina voru Sony a6000 og GoPro Hero 6 en við skildum drónann eftir þar sem það er bannað að fljúga dróna samkvæmt lögum í Marokkó.

Dagur 1 – Marrakesh – Souks & Jemaa El-Fnaa

Við gistum á Riad Yasmine sem er ótrúlega fallegt og vel staðsett Riad (Hótel) í Marrakesh. Við byrjuðum daginn á því að borða gómsætan morgunmat og röltum svo frá hótelinu í gegn um Souks niður í hjarta miðbæjarins, Jemaa el-fnaa. Leiðin tekur um 20 mínútur ef maður villist ekki og stoppar ekki á leiðinni en fyrir okkur tók leiðin um 2 tíma þar sem við tókum okkur góðan tíma í að skoða markaðinn. Það er hægt að finna ýmislegt fallegt og ódýrt á markaðinum en það er mjög mikið af ágengum sölumönnum og “leiðsögumönnum” sem reyna að lokka mann inn í búðirnar. Við lærðum þrennt eftir þessa reynslu, það er að reyna að forðast augnsamband, ekki treysta neinum því það er líklegast verið að reyna að fá pening frá þér og að prútta eins og enginn sé morgundagurinn því vanalegast er varan verðsett mun hærra.

  

Dagur 2 – Magic Desert Trip – Atlas Fjöllin & Ait Ben Haddou

Við fórum í 4 daga ferð um Morocco með bræðrunum Hamid og Mohamed hjá Magic Desert Trip. Bræðurnir eru innfæddir í Morocco og þekkja landið mjög vel, þeir eru úr þjóðflokk Berbera og ólust upp sem hirðingjar sem við segjum betur frá hér á eftir. Ferðin var yndisleg í alla staði og við mælum klárlega að panta 4 daga ferð frá Marrakesh til Fes hjá þeim. Þeir sýndu okkur alla helstu staði og bættu jafnvel inn stöðum sem okkur langaði að sjá. Fyrsta daginn sóttu þeir okkur á Riadið sem við gistum á og sýndu okkur meðal annars Atlas fjallagarðinn frá besta útsýnisstaðnum og Ait Ben Haddou sem er Berber kastali á heimsminjaskrá sem hefur einnig verið notaður sem staðsetning í Game of Thrones þáttaröðunum. Við gistum síðan á Riadi í Dades Gorge.

  

Dagur 3 – Dades Gorge, Todra Gorge & Merzuga Desert

Daginn eftir sýndu Hamid og Mohamed okkur Dades Gorge eða Döðlugljúfrið eins og Sverrir kýs að kalla það og Todra Gorge (Todra gljúfrið). Bæði gljúfrin eru virkilega falleg og einstök hvort á sinn hátt. Það var virkilega skemmtilegt að ganga í gegn um háa veggi Todra gljúfursins og sjá klifursnillinga vera að klifra upp veggina, en staðurinn er mjög vinsæll vettvangur áhugafólks um klifur. Við keyrðum síðan áleiðis í átt að eyðimörkinni en stoppuðum á leiðinni og fengum að prófa hefðbundin Berber föt sem var mjög skemmtilegt!

  

Eftir það keyrðum við til heimabæjar Hamid og Mohamed sem heitir Merzuga þar sem biðu okkar kameldýrin Bob Marley og Jimi Hendrix. Við vorum mjög spennt að prófa að sitja á baki kameldýra um eyðimörkina sem var líka einstök upplifun. Í eyðimörkinni ákváðum við að stoppa á miðri leið og klifra upp á hæsta hólinn sem við sáum og horfa á sólsetrið. Það var eitt allra fallegasta sólsetur sem við höfðum upplifað og við náðum fullt af fallegum myndum. Síðan fóru þeir Bob og Jimi með okkur í tjaldbúðirnar sem við sváfum í um nóttina sem heita Milky Way Desert Camp. Þegar þangað var komið tóku á móti okkur alls kyns veitingar, kvöldmatur og te og eftir mat kom Hamid, annar bróðirinn, Sverri skemmtilega á óvart með afmælisköku en hann hafði átt afmæli helginni áður. Síðan var sungið og dansað fram eftir nóttu undir heiðskírum og stjörnubjörtum himni. Okkur langaði svo að reyna að ná mynd af vetrarbrautinni og Hamid, sem er bara einn allra mesti snillingur sem við höfum kynnst, hjálpaði okkur og við náðum þessari fínu mynd hér að neðan. Þetta var algjörlega mögnuð upplifun sem ALLIR verða að prófa að minnsta kosti einu sinni á ævinni!

  

Dagur 4 – Nomad & Skoðunarferð

Um morguninn vöknuðum við í tjaldbúðunum, fengum okkur morgunmat og síðan lögðum við af stað í ævintýraferð um eyðimörkina. Við fengum að kynnast vinum og fjölskyldu Hamid og Mohamed sem eru “Nomads” eða nokkurs konar hirðingjar. Hamid sagði okkur að það væru til annars vegar hirðingjar sem eiga ekki fast búsvæði og flytja reglulega um stað og hins vegar hirðingjar sem eiga sér fast búsvæði. Fjölskylda þeirra á sér fast búsvæði en búa í tjöldum með lítið sem ekkert á milli handana. Við fórum með mat til þeirra og það var yndislegt að sjá alla krúttlegu krakkana svona ánægða með jógúrt og múslístykki, það var svo mikill kærleikur sem ríkti á milli þeirra og það var gaman að kynnast fjölskyldunni betur.

  

Dagur 5 – Fes – Hertz

Daginn eftir keyrðum við frá Merzuga til Fes. Á leiðinni sáum við villtan apa í skógi á leiðinni sem heitir Cedar Forest. Hamid og Mohamed keyrðu okkur síðan á flugvöllinn í Fes þar sem við fengum bílaleigubíl frá Hertz sem við vorum á restina af ferðinni. Bíllinn sem við völdum var appelsínugulur Jeep Renegade sem reyndist okkur ótrúlega vel! Hann var bæði mjög öruggur og í góðu standi, sem er mjög mikilvægt í Morocco afþví að umferðin þar er óútreiknanleg! Síðan fannst okkur mikilvægt að hann væri fjórhjóladrifinn og flottur þannig við gætum keyrt á malarvegum, tekið myndir og fleira! Við ákváðum að keyra beint til Chefchouen þar sem við erum ekkert rosalega mikið fyrir stórborgir og fengum alveg nóg eftir Marrakesh.

  

Dagur 6 – Chefchouen

Chefchouen er stundum kölluð Bláa Perlan en það er vegna þess að borgin er meira og minna blá! Borgin er staðsett í miðjum fjallagarði og á mili bláu veggjana má sjá falleg há fjöll rísa bakvið, einstaklega fallegt. Blái liturinn er tilkominn vegna þess að gyðingar sem voru að flýja Spán árið 1492 byrjuðu hefð að mála húsin sín blá og hefur sú hefð haldip síðan. Við mælum með að reyna bara viljandi að villast í miðbæ Chefchouen afþví að allar göturnar eru svo fallegar!

  

Draumur Tönju í ferðinni var að sjá geitur upp í trjám þannig eftir að við höfðum skoðað miðbæinn keyrðum frá Chefchouen í 10 tíma til Essaouira sem er fallegur strandbær suðvestan Marrakesh og gistum þar.

Dagur 7 – Essaouira & Tré Geitur

Við vorum búin að lesa á netinu að Tré geiturnar væru aðeins að finna í suðurhluta Morocco, á milli Agadir, Marrakesh og Essaouria. Eftir morgunmat á Riadinu fórum við að leita að trjágeitum og ákváðum að keyra til Marrakesh í þeirri von um að sjá þær á leiðinni og heppnin var svo sannarlega með okkur! Eftir klukkutíma keyrslu sáum við að vinstra megin við vegin var tré fullt af trjágeitum sem voru svo SÆTAR! Við þurftum reyndar að borga bóndanum sem átti þær til þess að taka myndir af þeim en það var magnað að sjá þær standa á trjágreinunum!

  

Dagur 8 – Marrakesh – Flug heim

Við enduðum ferðina á því að tríta okkur, slaka á og njóta á Riad Kniza! Riad Kniza var byggt upp af og hefur verið í eigu sömu fjölskyldu í rúmlega 200 ár! Mikið af frægu fólki hefur gist á því, þar á meðal Will smith, Muhammed Ali, Brad Pitt og Kurt Russell. Þetta er algjörlega frábært Riad í alla staði sem við mælum með ef þið ætlið að tríta ykkur í Marrakesh. Þar er falleg sundlaug, hægt að fara í nudd og hammam, síðan er hægt að fá sér að borða um kvöldið og herbergin eru á öðru leveli! Herbergið sem við fengum var til dæmis á tveimur hæðum! Síðan er líka ótrúlega falleg verönd upp á þakinu. Fullkominn staður til þess að hvílast og nærast fyrir flug aftur heim.

  
Ef það vakna upp einhverjar spurningar, vangaveltur eða ef þið viljið fá ráð varðandi ferðalög í Morocco megið þið endilega senda okkur fyrirspurn á @icelandic_travelers instagramið. Annars getið þið líka séð fleiri myndir og story frá ferðinni í highlights þar.

Takk fyrir að lesa!
-Tanja og Sverrir
@Icelandic_travelers

 

Sjá einnig:

10 dagar í Marokkó

 

About The Author

Tanja og Sverrir eru ferðaglatt par sem finnst fátt skemmtilegra en að skoða nýja staði saman. Frá því þau byrjuðu saman hafa þau ferðast mikið um Ísland jafnt og aðra staði í Evrópu. Þau hafa mikinn áhuga á ljósmyndun og reyna að fanga öll þeirra dýrmætustu augnablik á filmu. Auk þess að blogga hér eru þau með Instagramið @icelandic_travelers þar sem hægt er að fylgjast nánar með ævintýrum þeirra.

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.