Dreymir þig um frí og hvítar strendur? Ertu að deyja úr ferðaþrá? Ef svarið er já þá ert þú á réttum stað. Heimurinn er fullur af áfangastöðum sem hægt er að heimsækja á viðráðanlegu verði. Sama hvaða heimsálfa verður fyrir valinu þá eru ávallt einhver lönd sem hægt er að heimsækja án þess að fara á hausinn. Hér að neðan kemur listi af mínum uppáhalds áfangastöðum þar sem þú færð mikið fyrir lítið, hittir vingjarnlega heimamenn, borðar góðan mat og skemmtir þér konunglega.

Óman

Eftir að hafa ferðast um Óman í 10 daga á þessu ári hef ég komast að því að landið er sannarlega falinn fjársjóður! Það er áhugavert hversu lítið fólk raunverulega veit um landið og íbúa þess. Landamæri Óman liggja einungis í 100 km fjarðlægð frá miðbæ Dubai.  Flestir sem leggja leið sína til Óman í fyrsta sinn eiga einungis von á sand og eyðimörk. Það kemur því skemmtilega á óvart að svo er ekki, hér finnur þú glitrandi hvítar strendur, tignarlega fjallagarða, djúp gil, hella og fallega fossa. Auk þess eru heimamenn einstaklega vingjarnlegir, en landið er eitt það öruggasta í Mið-Austurlöndunum.

Góð leið til þess að ferðast ódýrt um Óman er að leigja bíl og jafnvel pakka með sér tjaldi, því hér kostar bensínlíterinn minna en vatnsflaska, eða aðeins 35 kr.

Hittum villtan en vinalegan úlfalda í Óman

Víetnam

Nánast öll löndin í Suðaustur-Asíu gætu verið á þessum lista, þar sem kostnaður við uppihald er afar lítill. Víetnam er friðsæll og einstakur áfangastaður, þar sem þú finnur hvítar strendur, stærstu hella heims, framandi dýralíf og ómótstæðilega matargerð. Hér færð þú auðveldlega gistingu undir 1.500 kr nóttin, götumat fyrir 200 kr og enn ódýrari samgöngur um allt land. Í Víetnam er auðvelt að lifa eins og kóngur án þess að eyða miklu.

Litagleði Víetnam

Austur-Evrópa

Litháen, Pólland, Búlgaría, Rúmenía, Moldóvía og Georgía eru ódýrustu löndin sem þú finnur innan Evrópu. Afhverju ekki að leigja bíl og kanna þessa lítt förnu áfangastaði? Árið 2011 skellti ég mér í Austur-Evrópureisu þar sem ég lifði hátt fyrir minna en 4.000 kr á dag. Verð fyrir hótelherbergi er yfirleitt 1.000 – 2.000 kr nóttin. Matur og samgöngur eru ódýrar og bjórinn á hlægilegu verði. Austur-Evrópa hefur ákveðinn sjarma og þar að auki sleppir þú við straum ferðamanna og háu verðin sem tíðkast í Vestur-Evrópu. Það er án efa synd að fleiri ferðist ekki um þetta svæði.

Austur Evrópa kemur skemmtilega á óvart

Myanmar

Myanmar, einnig þekkt sem Búrma, er klárlega áfangastaður sem þú ættir að setja á listann þinn fyrir 2015. Það er nokkuð stutt síðan þetta fallega land var opnað fyrir ferðamenn og því hefur menning landsins varðveist vel ásamt lágum verðum. Það er um að gera að flýta sér áður en miklar breytingar eiga sér stað vegna utanaðkomandi áhrifa.

Egyptaland – Sharm El Sheikh

Egyptaland er heimsþekkt fyrir múmíur og pýramída en menning landsins er einstök. Við Rauða Hafið finnur þú áhugaverðan ferðamannabæ, Sharm El Sheikh sem er þekktur fyrir heimsins fallegustu kóralrif, hvítar strendur, tæran sjó, eyðimerkur og frábært næturlíf. Rauðahafið liggur hlýtt og tært upp við bæinn sem gerir hann að drauma stað fyrir þá sem hafa ánægju af köfun og snorkli! Þar að auki er loftslagið hlýtt og þurrt (20° C – 35° C) allt árið um kring. Árið 2013 heimsótti ég bæinn ásamt 11 vinum í útskriftarferð. Við bókuðum tíu daga ferð frá London með öllu inniföldu (flug, hótel, 3 máltíðir á dag og allir drykkir bæði áfengir og óáfengir) á 120.000 kr. Auðvelt er að bóka fjöldann allan af skoðunarferðum út úr bænum t.d. köfunar-, báts- og eyðimerkurferðir, sem flestar kostuðu undir 4.000 kr.

Ein af fallegu ströndunum með kóralrifið beint fyrir utan og allt morandi í sjávarlífi

Ekki er verra að heimsækja pýramídana í Giza í leiðinni

Mið-Ameríka

Langar þig að skoða sögulegar rústir, fara í ferð inn í frumskóginn, læra á brimbretti og borða gómsætan mat með fáa túrista í kringum þig? Þá er Mið-Ameríka eitthvað fyrir þig. Hér er veðráttan frábær og íbúarnir bæði afslappaðir og gestristnir. Farðu til smærri landanna eins og El Salvador, Honduras, Nicaragua og Guatemala. Hér finnur þú ódýra gistingu á 2.000 kr. nóttin og fína máltíð á veitingastað um 500 kr. Auk þess kostar bjórinn undir 150 kr. og samgöngur ódýrar. Þegar þú ferðast um Mið-Ameríku uppgötvar þú hve mörg lönd eru á þessu litla landsvæði og hversu mikið menningin breytist á milli landamæra.

Suður Kórea

Suður Kórea er ein af þessum óuppgötvuðu perlum. Þrátt fyrir að vera hátækniþjóð líkt og Japan er hægt að ferðast um landið á ódýran hátt. Hér finnur þú fjölbreytt landslag, litríka menningu, falleg hof, villt næturlíf og gómsætan mat. Grillmáltíð á veitingahúsi ásamt drykkjum mun kosta þig undir 1000 kr og bjórinn í næstu búð undir 150 kr. Couchsurfing samfélagið er einnig afar virkt í Suður Kóreu og því auðvelt að verða sér úti um ókeypis gistingu. Þar að auki er nóg úrval farfuglaheimila í boði.

About The Author

Ása Steinarsdóttir
Ritstjóri og færsluhöfundur

Ása er ein af þremur eigendum Gekkó og rekur einnig ferðabloggið FromIceToSpice Ása er þekkt fyrir að flakka um allan heim og grípa ótrúlegustu augnablikin á filmu, hvort sem það er í ævintýraferð í Mongólíu eða af náttúruperlum Íslands.

Related Posts

2 Responses

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.