Sri Lanka er sannkölluð ferðamannaparadís. Á þessari litlu eyju finnur þú allt sem hugurinn girnist. Landið er gróðri vaxið, umlukið hvítum strandlengjum og heitum sjó fullum af framandi dýralífi. Hásléttur Sri Lanka eru þaktar teökrum og þar finnur þú fallegustu fjallavegi heims. Landið gætir áhrifa frá nágrannalandi sínu Indlandi í mat og menningu en einnig eru sjáanlegir straumar frá nýlendutímum Breta og Hollendinga. Hvarvetna munt þú hitta vinalegt heimafólk sem tekur glaðlega á móti ferðamönnum.

Sri Lanka datt af kortinu sem ferðamannastaður lengi vel vegna borgarstríðsins á norðurhluta eyjunnar og ekki síður vegna gjöreyðileggingarinnar í kjölfar flóðbylgjunnar árið 2004. Landið hefur þó náð sér aftur á strik og hefur sjaldan verið vinsælla meðal ferðamanna.

Einn helsti kostur eyjunnar eru stuttar fjarlægðir, en einungis 200 km liggja frá austri til vesturs og því auðvelt að upplifa það besta sem eyjan hefur upp á bjóða á einungis 2-3 vikum. Á þessari fallegu eyju finnurðu eitthvað fyrir alla; hægt er að læra á brimbretti, kafa, spila golf, heimsækja náttúrugarða með villtum dýrum, ganga á fjöll eða sóla sig á ströndinni.

Erfitt er að koma öllu fyrir um Sri Lanka í eina færslu og verður því þessi tileinkuð fallegustu strandbæjum landsins.

6 Flottustu strendur Sri Lanka

6) Unawatuna

Unawatuna er lítill strandbær á suðvestur-strönd Sri Lanka sem hefur notið aukinnar vinsælda á síðustu árum og er í dag iðandi ferðamannastaður. Hér munt þú því finna mikið úrval af gistiheimilum, kaffihúsum, og veitingastöðum sem bjóða upp á ferskt sjávarfang. Því miður hefur þó ferðamennskan vaxið á kostnað strandlengjunnar síðastliðin ár og er því strandlengjan ekki eins breið og hún var áður. Við ströndina liggur fallegt kóral rif þar sem er auðveldlega hægt að kanna með því að snorkla. Hluti af kóral rifinu skemmdist þó í flóðbylgunni árið 2004 og hefur því dýralífið minnkað síðan þá.

Vinsælt er að gera sér dagsferðir til hollenska nýlendubæjarins Galle sem er í um 6 km fjarlægð. Þar er hægt skoða þar gamalt virki sem var fyrst byggt af Portúgölum en síðar yfirtekið af Hollendingum á 17. öldinni. Virkið er afar fallegt og hefur varðveist vel í tímanna rás. Ef þú ert að leita af lítilli og sætri strönd í bland við að hitta aðra ferðamenn þá er Unawatuna eitthvað fyrir þig.

*Í Unawatuna finnur þú tveggja manna hótelherbergi á 2.000 kr og fína máltíð á 500 kr fyrir einn. Tuktuk (þríhjól) frá lestarstöðinni að ströndinni kostar 150 kr. 

5) Negombo

Negombo er strandbær sem er staðsettur rétt fyrir utan alþjóða flugvöll Sri Lanka. Negombo fær því að tilheyra þessum lista því hér er vinsælt að slaka á eftir löng flug í stað þess að fara beint inn í yfirþyrmandi höfuðborgina, Colombo.

Ströndin í Negombo er vinsæl meðal íbúa Sri Lanka. Hér munt þú sjá heimamenn horfa á sólsetrið, spila krikket og hlaupa um með flugdreka. Ströndin er ekki eins snyrtileg samanborið við aðrar strendur Sri Lanka og litlar líkur á að finna sólbekki tileinkaðar ferðamönnum. Hér þarftu að aðlaga þig að hefðum heimamanna og koma með þunnt teppi til að liggja á. Í þessum bæ eru mun færri veitingastaðir byggðir á ströndinni. Það liggur þó krúttleg göngugata innar í bænum sem iðar af kaffihúsum og veitingarstöðum. (Mæli sérstaklega með Pancake House)

*Í Negombo finnur þú tveggja manna gistiheimili á 1.500 kr og fína máltíð á 500 kr fyrir einn. Hægt er að taka tuktuk frá flugvellinum til Negombo fyrir 500 kr. 

4) Tangalle

Tangalle er klárlega strandbær fyrir ferðamenn sem kjósa ró og næði í bland við ósnerta strönd.

Ströndin tilheyrir litlu fiskiþorpi og er þekkt fyrir hvítan sand og há kókóshnetutré. Í sjónum eru þó sterkir undirstraumar sem gerir ströndina ekki að góðum stað fyrir sund eða aðrar vatnsíþróttir. Hér munt þú þó finna hengirúm og einstaklega krúttlega veitingastaði og kaffihús. Ferðamannainnviði strandbæjarins eru þó mun lakari en í öðrum bæjum á þessum lista.

Staðurinn endurnærir líkama og sál og gefur þér frí frá æstum sölumönnum og tuktuk-bílstjórum. Nálægt ströndinni finnur þú fallegt lón þar sem hægt er að leigja kajak og njóta fjölbreytts fuglalífs. Auk þess er vinsælt að heimsækja Mulgirigala, glæsilegt musteri sem er staðsett rétt utan við bæjinn. Musterið er byggt á gnæfandi kletti sem gefur þér frábært útsýni yfir frumskógin en einnig búa þar nokkrar apafjölskyldur sem gaman er að heilsa upp á.

*Hægt er að labba frá rútustöðinni að ströndinni. Gistingu fyrir tvo var fáanleg á 1.500 kr og fín máltíð á 500 kr. Kayak ferð á lóninu kostaði 500 kr á mann. Heimsókn í musterið kostaði 250 kr á mann. 

3) Hikkaduwa

Síðastliðna áratugi hafa Hikkaduwa og Narigama verið vinsælustu strendur Sri Lanka. Strandbærinn tengir þessar tvær strendur saman í eina heild. Bærinn er fylltur einstöku andrúmslofti með kaffihúsum og börum á hverju strái. Hér munt þú sjá ungt fólk njóta lífsins, skjaldbökur á vappi og brimbrettakappa úti í sjó.

Bærinn er fullur af lífi bæði kvölds og morgna. Hikkaduwa er því klárlega staðurinn fyrir þá sem vilja hitta aðra ferðamenn, leika sér í sjónum eða njóta þess að drekka kaldan bjór í hengirúmi.

Hikkaduwa hefur verið tilnefndur sem besti brimbrettastaður Sri Lanka á eftir Arugam Bay. Ströndin er því himnaríki fyrir þá sem vilja spreyta sig á brimbretti. Ekki láta risaskjaldbökurnar framhjá þér fara, en þær svamla reglulega meðfram strandlengjunni. Það þarf ekki að synda langt út í til þess að hitta þessa vinalegu risa.

*Hægt er að labba frá lestarstöðinni eða taka tuktuk að ströndinni fjær fyrir 100 kr. Gisting fyrir tvo var fáanleg á 1.500 kr og fín máltíð á 500 kr. Bjórinn kostar 300 kr. 

2) Trincomalee

Trincomalee er svo sannarlega himnaríki á jörðu. Ólíkt öðrum ströndum á þessum lista er Trincomalee staðsett á norðaustur-strönd Sri Lanka. Strendurnar hér eru engu líkar, úr skærhvítum sandi umvafin kristaltærum sjó. Straumarnir hér er mun rólegri sem gerir ströndina fullkomna fyrir sund, snorkl eða köfun. Trincomalee hefur þó gengið í gegnum erfiða tíma síðastliðin ár en hér hefur geysað borgarastyrjöld sl. áratugi sem tók að lokum enda árið 2009. Bærinn er því enn að vinna sig út úr hörmungunum og því eru innviðir bæjarins vanþróaðari en aðrir strandbæjir landsins. Það gerir hann samt enn heimilislegri og það líður ekki á löngu þar til þú ert farin að þekkja alla þjóna og kokka bæjarins.

Í bænum ríkir róleg og afslöppuð stemmning, okkur leið oft á tíðum eins og við hefðum þessa paradís út af fyrir okkur. Hér er fullkomið að slaka á með góða bók við hönd.

Fyrir utan ströndina liggur falleg lítil eyja, kölluð Pigeon Island, sem er afar vinsæll köfunar- og snorklstaður. Eyjan er ein af tveimur sjávarnáttúrugörðum Sri Lanka og því þarf að greiða aðgangseyri og ganga varlega um. Eyjan er umlukin litríku kóralrifi og kristaltærum sjó. Sýnileikinn er í raun eins og hann gerist bestur og því auðvelt að skoða fjölbreytt dýralífið. Búðu þig þó undir að hitta nokkra rif-hákarla því þeir eiga búsvæði við eyjuna, það er þó óþarfi að stressa sig því þeir ráðast ekki á mannfólk. Nýttu því tækifærip til að fylgjast með þessum mögnuðu skepnum sem oft láta sjá sig nokkrir saman í hópum. Auk þess eru risaskjaldbökur, skötur, ígulker og litríkir fiskar. Hluti af kóralrifinu hefur þó skemmst vegna óvarkárs umgangs ferðamanna en einnig eftir flóðbylgjuna 2004. Því er afar mikilvægt að gestir gangi varlega um þetta viðkvæma vistkerfi.

Einnig er vinsælt að gera sér dagsferðir inni í borg Trincomalee en þar finnur þú gamalt virki og fallegt hof. Það sem kemur hins vegar mest á óvart er að dádýr búa í borginni eins og götuhundar. Hvert sem þú lítur munt þú sjá þessi fallegu en feimnu dýr á vappi. Þau eru í bakgörðum hjá fólki, á rútustöðinni sem og á ströndunum. Þegar Sri Lanka var bresk nýlenda fluttu Bretar dádýr til Trincomalee sem gæludýr og síðan þá hafa þau fengið að búa í bænum óáreitt.

*Tuktuk frá Trincomalee að ströndinni kostar 300 kr. Gistingu fyrir tvo var fáanleg á 1.000 kr og fín máltíð á 500 kr. Padi köfunarréttindi kostuðu 50.000 kr. Snorklferð að Pigeon Island kostar 2.500 kr á mann. 

1) Mirissa

Mirissa liggur við suðurströnd Sri Lanka og er að mínu mati einn besti strandbærinn í Sri Lanka. Ströndin virðist búa yfir fullkomnri blöndu af hreinleika, gæðum og innviðum án þess að vera spillt af túrisma. Þessi hálfmánalega strönd hefur allt það sem maður leitast eftir í sólarlandafríi. Sjórinn er hlýr og sandurinn fínn og alls staðar skaga pálmatré yfir ströndinn. Hægt er að leigja brimbretti fyrir 400 kr. á klst. og spreyta sig á öldunum. Einnig er boðið upp á kennslu fyrir byrjendur.

Á kvöldin eru allir veitingastaðirnir kertalýstir sem gerir ströndina þá rómantískustu í Sri Lanka. Ég mæli einnig sterklega með því að skella sér í hvalaskoðun hér því undan ströndum Mirissa er einn besti staður í heimi til að sjá hina mögnuðu steypireyði.

 

About The Author

Ása Steinarsdóttir
Ritstjóri og færsluhöfundur

Ása er ein af þremur eigendum Gekkó og rekur einnig ferðabloggið FromIceToSpice Ása er þekkt fyrir að flakka um allan heim og grípa ótrúlegustu augnablikin á filmu, hvort sem það er í ævintýraferð í Mongólíu eða af náttúruperlum Íslands.

Related Posts

2 Responses

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.