Dreymir þig um frí og fallegar borgir? Ertu komin með smá ferðaþrá? Ef svarið er já þá ert þú á réttum stað. Heimurinn er fullur af áfangastöðum sem hægt er að heimsækja á viðráðanlegu verði. Sama hvaða heimsálfa verður fyrir valinu þá eru ávallt einhver lönd sem hægt er að heimsækja án þess að fara á hausinn. Hér að neðan kemur listi yfir mína uppáhalds ferðastaði í Evrópu þar sem þú færð mikið fyrir lítið, hittir vingjarnlega heimamenn, borðar góðan mat og getur skemmt þér konunglega.

BÚDAPEST   Eftir að hafa heimsótt Búdapest í vor, varð hún fljótlega mín uppáhalds borg í Evrópu. Það sem kom mér einna helst á óvart er hvað borgin er rosalega falleg, hvert sem litið er eru fallegar byggingar, krúttleg kaffihús og grænir garðar. Ekki skemmir fyrir hversu ótrúlega ódýrt er að dvelja í borginni. Jafnvel er hægt að leyfa sér að dvelja á fínu hóteli í heila viku á góðu verði. Bjórinn kostaði yfirleitt innan við 100 kr og fín máltíð var undir 1.500 kr.Austur-Evrópa hefur ákveðinn sjarma og þar að auki sleppir þú við straum ferðamanna og háu verðin sem tíðkast í Vestur-Evrópu. Nú er einmitt tækifæri til að skella sér því í vor þá byrjaði flugfélagið Wizz Air að fljúga á milli Búdepest og Íslands og flugfélagið býður upp á lág flugfargjöld.

ALBANÍA

Albanía er enn lítið heimsótt land af ferðamönnum en helsta ástæða þess er að óeirðir ríktu í landinu til ársins 1991. Á síðastliðnum 20 árum hefur landinu tekist að koma sér á kortið. Albanía er staðsett alveg við Grikkland og er því mjög svipað landslag og þar. Ótrúlegt en satt þá finnur þú hvítar strendur og paradísaeyjur á helmingi lægra verði í Albaníu en í Grikkland. Frekar mikil fátækt ríkir í landinu en samt sem áður er gestrisni heimamanna engu lík. Það sannaði sig í mínu ferðalagi þar sem ég týndi vegabréfinu mínu, en allir sem voru í kringum mig aðstoðuðu mig við að fá það aftur í hendurnar. Landið býður upp á ótrúlega fjölbreytt landslag með háum fjallgörðum með litlum og heillandi fjallaþorpum.

BERLÍN

Að skella sér til Berlínar er alltaf góð hugmynd! Borgin er af mörgum kölluð “New York” Evrópu. Þeir sem til þekkja segja að það sé hægt að finna allt í Berlín. Stöðugt fleiri vilja heimsækja borgina og er það ekki skrýtið. Hún hefur upp á svo ótal margt að bjóða og erfitt fyrir mann að sjá allt og upplifa á fáum dögum. Hin einstaka fjölmenning og merkilegar minjar sem sprottnar eru úr rústum eyðileggingar eftir seinni heimsstyrjöldina, andstæðan milli austurs og vesturs. Svo heillar marga þýski bjórinn og næturlíf sem stendur fram til morguns.

SLÓVENÍA

Slóvenía er kannski ekki land sem þér dettur fyrst í hug þegar þú ert að planleggja ferðalag. Slóvenía er áhugavert land að heimsækja og er álíka fallegt hvort sem þú ákveður að skella þér að vetri eða sumri til. Á veturna getur þú auðveldlega farið ódýrt á skíði en á sumrin heimsótt töfrandi staði eins og fræga vatnabæinn Bled. Staðurinn er eins og klipptur út úr hugarheimi ævintýranna þar sem Bled vatnið skartar einni lítilli eyju með kirkju í miðju vatninu.

CRÓATÍA

Í Króatíu færð þú Miðjarðarhafs upplifun á lægra verði en í löndum eins og Ítalíu og Spáni. Þar eru fallegar strendur, tær sjór og næstum því öruggt að það verður sól og heiður himinn ef þú ferðast þangað að sumari til. Í Króatíu getur þú valið milli þess að heimsækja frægar borgir eins og Dubrovnik (þar sem Game of Throes er tekið upp) eða eyjur eins og Korcula.

 

About The Author

Ása Steinarsdóttir
Ritstjóri og færsluhöfundur

Ása er ein af þremur eigendum Gekkó og rekur einnig ferðabloggið FromIceToSpice Ása er þekkt fyrir að flakka um allan heim og grípa ótrúlegustu augnablikin á filmu, hvort sem það er í ævintýraferð í Mongólíu eða af náttúruperlum Íslands.

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.