Ertu á leiðinni í bakpokaferðalag?

Það eru fæstir fæddir atvinnuferðamenn. Langflestir gera einhver mistök í upphafi; týna vegabréfinu, missa af rútuferð eða koma sér í vandræðalegar aðstæður vegna skilningsleysis á menningu landsins. En einn daginn verður þú orðinn reynslubolti sem þýtur í gegnum flugvelli og samþættist nýrri menningu eins og fiskur í vatni.

Til þess að flýta ferlinu og hjálpa þér að forðast þau mistök sem ég hef gert, setti ég saman lista sem hjálpar þér að gerast ferða-ninja í nokkrum skrefum.

Bakpokaferðalag – Sri Lanka

 1. Pakkaðu létt! 
  Þetta eru þau mistök sem ég hef oftast brennt mig á! Það er allt í lagi að vera í sama bolnum í nokkra daga í röð. Pakkaðu niður því sem þú heldur að þú þurfir, taktu síðan helminginn í burtu….tadaa! Einnig getur verið sniðugt fjárfesta í minni ferðatösku/bakpoka; minna pláss neyðir þig til þess að pakka létt og forðar þér frá óþarfa farangri.
 2. Borðaðu götumat! 
  Ekki hræðast sveitta götusalann á horninu. Ef þú sleppir því að borða götumatinn, þá missir þú af matarmenningu landsins. Finndu stað sem er vinsæll meðal innfæddra, þar eru minni líkur á að hráefnið sé gamalt eða búið að standa lengi.
 3. Ekki skipuleggja ferðina þína of mikið í þaula
  Leyfðu dögunum þínum að þróast á náttúrulegan hátt. Þú getur skipulagt fyrirfram tvo til þrjá staði eða atburði í hverju landi en leyfðu afgangnum að ráðast. Það er mun minna stressandi og þar að auki er langskemmtilegast að taka einn dag í einu. Lifðu í núinu!
 4. Fjárfestu í ferðatryggingum. 
  Enga vitleysu! Ef eitthvað fer úrskeiðis, þá vilt þú ekki sitja uppi með miljón króna reikning. Ferðatryggingar er það mikilvægasta sem þú fjárfestir í. Það þarf ekki nema eitt handleggsbrot til þess að tryggingarnar séu búnar að borga sig upp. Fyrirtæki eins og World Nomands og Dr.Walter sérhæfa sig í tryggingum á bakpokaferðalögum.
 5. Lærðu miklvægustu frasana í tungumáli landsins
  Það getur bjargað þér á stöðum þar sem engin enska er töluð en einnig munt þú njóta meiri virðingar meðal heimamanna. Með því að heilsa og biðja um söluverð á þeirra eigin tungu eru minni líkur á að þú fáir uppsprengd túristaverð.
 6. Ferðastu á eigin vegum að minnsta kosti einu sinni.
  Þú átt eftir að læra mikið um sjálfan þig og verða sjálfstæðari fyrir vikið. Það er kannski klisja, en hún er sönn! Að ferðast á eigin vegum kennir þér hvernig á að standa á eigin fótum, kynnast fólki og takast á við framandi aðstæður.
 7. Taktu auka greiðslukort með þér 
  Ég er ein af þeim sem tilheyri svarta listanum hjá Íslandsbanka, enda fengið óteljandi kortaendurnýjanir vegna glataðra korta. Eftir að hafa lært það á erfiða mátan að glata EINA greiðslukortinu mínu erlendis tek ég alltaf með mér a.m.k. eitt aukakort. Sniðugt er að geyma kortin á sitthvorum staðnum ef veskið skyldi týnast eða verða rænt. Þú vilt ekki lenda í því að vera fastur einhvers staðar án þess að hafa aðgang að peningum.
 8. Veldu rétta greiðslukortið
  Hafðu samband við bankann þinn áður en þú leggur af stað og vertu viss um hvaða kort kemur sér best á ferðalögum. Yfirleitt er ódýrast að greiða beint með debetkorti erlendis og komast þannig hjá óþarfa hraðbankagjöldum. Hins vegar er reiðufé ríkjandi í viðskiptum flestra þriðja heims landa og þá skynsamegra að taka út tiltölulega háar en í staðinn færri upphæðir af debetkorti í hraðbönkum sem ekki taka þóknun. Ekki leyfa bönkunum að græða á þínu ferðalagi. Það eru peningar sem þú vilt halda fyrir þig og eyða í næstu klifur-, köfunar- eða bátsferð.
 9. Fjárfestu í Silki svefnpoka
  Þegar þú ferðast um heiminn munt þú líklegast sofa á mis hreinum gistiheimilum, þá kemur silki svefnpokinn sér vel! Hann er ótrúlega fyrirferðalítill, auk þess ná skordýrin/bedbugs ekki festu í silkinu og á þann hátt sleppir þú við leiðindar bit.
 10. Vertu með afrit af vegabréfinu þínu og öðrum mikilvægum skjölum
  Fáðu staðfest afrit af vegabréfinu þínu hjá sýslumanninum í Kópavogi. Ekki gleyma því að senda þér tölvupóst með afritunum. Á þennan hátt ertu með plan B í neyðartilvikum.
 11. Lærðu að prútta
  Aldrei sætta þig við fyrsta tilboð. Í menningu margra landa er svigrúm fyrir afslátt af uppgefnu verði. Vertu því ekki feiminn við að prútta, þú ert ekki að fara að móðga neinn. Ágæt regla er að helminga fyrsta tilboð og sjá hvert það leiðir þig. Ef þú ert ekki sáttur gaktu þá í burtu, oftar en ekki færðu sölumanninn til þess að hlaupa á eftir þér með enn lægra verð. Engar áhyggjur, þetta verður auðveldara með tímanum.
 12. Pakkaðu ávallt handklæði
  Þú veist aldrei hvenær þú þarf á því að halda, hvort sem það er á ströndinni, í lautarferð eða bara til að þurrka sér. Ég mæli séstaklega með míkrófíber handklæðum sem þorna fljótt.
 13. Útbúðu þína eigin sjúkratösku.
  Vertu viðbúin, slysin gerast. Með því að taka með sér grunnbúnað, svo sem umbúðir og helstu sýklalyf, getur þú komið í veg fyrir óþarfa læknisheimsókn sem bæði tekur frá þér tíma og pening.
 14. Pakkaðu eyrnatöppum.
  Þú veist ekki alltaf hvar þú munt eyða næstu nótt. Eyrnatappar hafa bjargað mér frá háværum barnsgrátri, hrjótandi herbergisfélaga, biluðum ískápum og dúndrandi bassa frá næsta skemmtistað.
 15. Taktu fullt af ljósmyndum.
  Þegar árin líða munt þú njóta þess að fletta í gegnum myndir af gömlum ævintýrum og rifja upp kunnuleg andlit sem gerðu ferðina minnistæða.
 16. Bólusettu þig bak og fyrir.
  Þú vilt ekki veikjast í framandi landi með laka læknisþjónustu. Göngudeild sóttvarna í Mjóddinni sérhæfir sig í ferðamannabólusetningum. Best er að bóka tíma fyrir bólusetningu að minnsta kosti mánuði fyrir brottför.
 17. Bókaðu flugin þín með 3-4 mánaða fyrirvara.
  Nýttu þér leitarvélar á borð við Dohop og Momondo til að finna bestu fargjöldin. Reynslan hefur sýnt að þú færð bestu tilboðin með því að bóka flugin með 3-4 mánaða fyrirvara. Ekki gleyma því að fletta upp flugvöllum í nærliggjandi bæjum. Lággjalda flugfélögin fljúga ekki alltaf milli stærstu borganna.
 18. Fjárfestu í SIM korti erlendis.
  Ef þú ætlar að dvelja lengur en viku í landinu getur borgað sig að vera með innlent SIM kort. Þau eru yfirleitt ódýr og oft fylgir með bæði síma- og netinneign. Flest lönd búa nú yfir 3G/4G tækni sem getur verið ómetanleg þegar þú villist af leið eða þarft einfaldlega að fletta upp nærliggjandi hótelum eða veitingastöðum.
 19. Nýttu þér Tripadvisor.
  Hér færðu oft nytsamlegar upplýsingar frá öðrum ferðalöngum, hvort sem um er að ræða veitingastaði, hótelgistingar eða áhugaverða staði. Ég veit ekki hve oft ég hef fundið litlar perlur sem ég hefði aldrei uppgötvað sjálf nema með hjálp Tripadvisor.
 20. Lágmarkaðu verðmætin.
  Þegar þú ferð út af gistiheimilinu er óþarfi að vera með vegabréfið, öll greiðslukortin og allan peninginn á sér. Þannig kemur þú í veg fyrir að vera allslaus ef eitthvað kemur upp á.
 21. Fjárfestu í lás.
  Lásar koma sér vel ef þú villt að verðmæti þín séu óhult, sérstaklega ef þú gistir í sameiginlegu gistirými á farfuglaheimili.
 22. Ekki skammast þín fyrir að fara á Mc Donalds.
  Stundum getur verið góð tilbreyting að fá sér eitthvað sem maður kannast við og fá frí frá “Rice and curry”

Og að lokum mundu eftir sólavörninni!

About The Author

Ása Steinarsdóttir
Ritstjóri og færsluhöfundur

Ása er ein af þremur eigendum Gekkó og rekur einnig ferðabloggið FromIceToSpice Ása er þekkt fyrir að flakka um allan heim og grípa ótrúlegustu augnablikin á filmu, hvort sem það er í ævintýraferð í Mongólíu eða af náttúruperlum Íslands.

Related Posts

One Response

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.